„Hraðpróf eru einfaldari en PCR og flest hraðpróf leita aðeins að einu prótíni kórónuveirunnar SARS-CoV-2. Ef stökkbreytingar í því prótíni breyta lögun prótínsins er hætt við að hraðprófin hætti að nema veiruna,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á vef Embættis landlæknis undir spurningunni: Hraðpróf eða PCR til að finna [Ómíkron]?
Þar er vakin athygli á því að PCR-próf séu nákvæmari en hraðpróf og því vænlegri til þess að finna ýmis afbrigði kórónuveirunnar.
Nýtt afbrigði kórónuveirunnar, svokallað Ómíkron-afbrigði, hefur valdið usla víða um heim þó enn sé óvíst hvort það sé meira smitandi en fyrri afbrigði og hvort það eigi auðveldara með að komast fram hjá vörninni sem bóluefnin sem eru í umferð veita. Nokkur tilvik Ómíkron hafa greinst hér á landi.
Eins og Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítala, útskýrði í samtali við mbl.is í gær þá er S-genið það stökkbreyttasta í Ómíkron-afbrigðinu.
Í svari sóttvarnalæknis kemur ekkert fram um það að hraðprófin geti ekki numið Ómíkron-afbrigðið en frekar er mælt með PCR-prófum.
„PCR próf sem notuð eru hér á landi leita að lágmarki að tveimur genum, einmitt til að draga úr hættu á að þau nemi ekki afbrigði með stökkbreytingar á lykilstöðum í þeim genum,“ segir í svari Þórólfs.
„Til þess að vera sem öruggust með að finna þá sem eru veikir af COVID-19 er mjög mikilvægt að þeir sem hafa einkenni fari í PCR einkennasýnatöku en ekki í hraðpróf. Ekki er heldur mælt með sjálfsprófum.“