Í farbann sakaðir um þaulskipulögð þjófnaðarbrot

Að mati lögreglu er um að ræða þaulskipulögð þjófnaðarbrot, sem …
Að mati lögreglu er um að ræða þaulskipulögð þjófnaðarbrot, sem framkvæmd eru af ríkum ásetningi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Landsréttur hefur fellt úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurði yfir tveimur erlendum mönnum sem eru grunaðir um skipulagða brotastarfsemi hér á landi. Mennirnir hafa aftur á móti verið úrskurðaðir í farbann til 20. desember, en þeir hafa verið ákærðir fyrir þaulskipulögð þjófnaðarbrot.

Mennirnir voru handteknir 27. október og úrskurðaðir í gæsluvarðhald tveimur dögum síðar.

Rannsókn málanna er nú lokið og hefur lögregla gefið út ákæru í málunum. Að mati lögreglu er um að ræða þaulskipulögð þjófnaðarbrot, sem framkvæmd eru af ríkum ásetningi, þar sem verknaðaraðferð er þaulskipulögð og notaðar eru til verksins sérútbúnar töskur, þjófnaðarnir eru ítrekaðir og endurteknir, framkvæmdir af mörgum aðilum og á mörgum stöðum. Alls er ákæran í tíu liðum.

Fram kemur í greinargerð með úrskurðinum að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi til rannsóknar meintan skipulagðan þjófnað mannanna m.a. úr verslun Bláa lónsins í Grindavík auk annarra verslana á Íslandi.

Stóðu mennina að verki

Í greinargerðinni segir ennfremur frá því að þann 27. október hafi lögreglu borist tilkynning um þjófnað úr verslun Bláa lónsins, sem fyrr segir. Höfðu starfsmenn staðið mennina að þjófnaði í versluninni og farið á eftir þeim. Mönnunum tókst hins vegar að komast undan á hlaupum og inn í bifreið þaðan sem þeir óku af vettvangi. Stuttu seinna urðu lögreglumenn varir við bifreiðina í Hafnarfirði móts við álverið í Straumsvík og voru mennirnir í bílnum.

Mennirnir framvísuðu við lögreglu á vettvangi svörtum bakpoka og í honum voru tvær úlpur af gerðinni Canada Goose. Þjófavörn og verðmiðar voru enn á úlpunum og var önnur úlpan verðmerkt 119.900 kr. Um er að ræða sömu úlpur og menn sem sáust á upptökum úr öryggismyndavélum setja í bakpoka inni í versluninni þá rétt áður. Þeir voru í kjölfarið handteknir og færðir í fangaklefa á lögreglustöðinni í Reykjanesbæ.

Fundu þýfi í herbergi mannanna í Reykjavík

Í farangursrými bifreiðarinnar fannst hliðartaska þar sem skorið hafði verið á botn töskunnar og í klæðningu var búið að koma fyrir „vasa“ gerðum úr álpappír og límbandi. Annar slíkur vasi fannst undir botni farangursgeymslunnar. Segir í greinargerð að vasar af þessu tagi hafi áður komið við sögu hjá lögreglu vegna þjófnaðar og séu þekkt tæki í þjófnaðarmálum þar sem þeir koma í veg fyrir að þjófavarnarhlið virki sem skyldi. Um sé að ræða sérútbúna tösku til búðarþjófnaðar og brotið virðist vera skipulagt. Þessi verknaðaraðferð sé þekkt í skipulagðri brotastarfsemi.

Þá segir að rannsókn málsins hafi leitt í ljós að mennirnir séu með til umráða herbergi í Reykjavík. Að undangengnu samþykki var framkvæmd húsleit í herberginu og við þá leit fundust meint þýfi, fatnaður, nokkuð magn af afklipptum merkimiðum auk „vasa“ gerðum úr álpappír og límbandi, samskonar þeim og fannst í tösku í bifreiðinni.

Við skýrslutöku viðurkenndu mennirnir þjófnað í flestum málanna en að öðru leiti hafa þeir að mati lögreglustjóra verið ósamvinnuþýðir og framburðir þeirra beggja misvísandi, m.a. hafi þeir neitað að gefa upp dvalarstaði sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert