Íshellan yfir Grímsvötnum hefur sigið um 23,6 metra frá því fyrst fór að bera á sigi fyrir um tíu dögum, samkvæmt nýjustu mælingum Veðurstofu Íslands.
Nákvæmari mælinga um stöðuna er að vænta með morguninum.
Þá nemur rennsli í Gígjukvísl 1.143 rúmmetrum á sekúndu.
Rennslið er tífalt á við venjulegt rennsli árinnar á þessum árstíma.
Rafleiðni, sem gefur til kynna magn hlaupvatns í ánni, hefur einnig aukist síðustu daga. Gas mælist í litlu magni við jökulsporðinn og þykir vel innan hættumarka.
Gosið hefur á fimm til tíu ára fresti úr Grímsvötnum og hefur vísindamönnum komið saman um að mælingar sýni að Grímsvötn séu tilbúin til að gjósa.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að ekkert sé þó hægt að fullyrða um að eldgos verði samfara þessu hlaupi og fylgjast þurfi grannt með skjálftavirkni í Grímsvötnum sem geti gefið vísbendingar um að gos sé yfirvofandi.