Íslensk erfðagreining íhugar að hætta raðgreiningu

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar Ljósmynd/Aðsend

Íslensk erfðagreining mótmælir ákvörðun Persónuverndar að með þjónustu við heilbrigðisyfirvöld í Covið-19 faraldrinum hafi fyrirtækið framið glæp. Fyrirtækið mun leita þess að fá ákvörðuninni hnekkt fyrir dómstólum og þar til það hefur tekist er ekki ljóst hvort það sé skynsamlegt að fyrirtækinu að halda áfram raðgreiningu veirunnar. Þetta segir í tilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu.

Þá er bent á að þegar farsóttin barst til landsins hafi starfsmenn fyrirtækisins hent frá sér öðrum verkefnum og snúið sér alfarið að ví að styðja við sóttvarnir í landinu. Sérþekking, hugvit og tæki sem fyrirtækið býr yfir voru nýtt sem vörn við veirunni og þessa hluti var hvergi annars staðar að fá.

Í yfirlýsingunni segir að allar ákvarðanir og aðgerðir sem fyrirtækið greip til var borið undir sóttvarnalækni og framkvæmdar með blessun hans.

Skoðuðu hve stór hluti landsmanna hefði ónæmi 

Þá er málið rakið í tilkynningunni en snýr það í megindráttum að því að sóttvarnalæknir tók þá ákvörðun í samráði við Íslenska erfðagreiningu að kanna hversu stór hundraðshluti landsmanna hefði myndað mótefni við veirunni.

Skoðað var þá mótefni í blóði þeirra sem höfðu smitast og sýkst alvarlega og því voru tekin sýni úr einstaklingum sem lágu sýktir inni á Landspítala. Var þetta gert til þess að skilja stöðu faraldursins í landinu svo hægt væri að sníða aðgerðir eftir vexti.

Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að sýnin hafi á engan hátt tengst sóttvarnarátaki og þar með hafi fyrirtækið brotið gegn persónuverndarlögum. Samkvæmt tilkynningu stangast þetta á við álit sóttvarnalæknis, landlæknis, og yfirlæknis smitsjúkdómadeildar Landspítala.

Segir einnig að þegar álitamál hvort um sé að ræða vísindarannsókn á heilbrigðissviði er það samkvæmt lögum um vísindarannsóknir ekki Persónuverndar að skera úr um það.

Leysa málið fyrir dómstólum

Segir þá um framhaldið í tilkynningu: „Íslensk erfðagreining mun leita þess að fá ákvörðun Persónuverndar hnekkt fyrir dómstólum. Þangað til að það hefur tekist er ekki ljóst hvort það sé skynsamlegt af fyrirtækinu að halda áfram að þjónusta sóttvarnaryfirvöld með því að raðgreina veiruna.“

Í lokin er bent á að hafi fyrirtækið framið glæp sé allt eins líklegt að raðgreiningin sé það líka enda sé þar aflað gagna sem sett eru í samhengi til þess að sækja nýja þekkingu og aðstoða þannig sóttvarnaryfirvöld í baráttunni við veiruna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert