Kári æfur vegna úrskurðar Persónuverndar

Kári Stefánsson forstjóri Decode.
Kári Stefánsson forstjóri Decode. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er allt annað en sáttur með úrskurð Persónuverndar þess efnis að fyrirtækið hafi framið glæp í baráttunni við Covid-19.

ÍE í samstarfi við sóttvarnalækni tók þá sýni hjá sýktum einstaklingum í fyrra en var það hluti rannsóknar sem unnin var til þess að skilja betur hve stór hundraðshluti landsmanna reyndist vera með mótefni við veirunni í fyrra.  

Í samtali við mbl.is segir Kári: „Þegar þeir gefa út ályktun um að við höfum framið glæp með því að leggja af mörkum í baráttunni við veiruna þá finnst mér Persónuvernd hafa farið yfir línuna.“

Erlendir samstarfsaðilar í húfi

Kári segir einnig að fyrirtækið standi frammi fyrir því að missa alla erlenda samstarfsaðila standi þessi úrskurður óbreyttur. Hann segist einfaldlega ekki skilja hvað búi að baki þessarar ákvörðunar. „Við lögðum allt í sölurnar fyrir þetta samfélag. Unnum dag og nótt og gerðum ekkert annað en það sem sóttvarnalæknir lagði til.“

Hann spyr einfaldlega „hvað sé að þessu fólki“. Um sé að ræða verulega óvanalega tíma og sóttvarnalög veiti sóttvarnalækni heimild til þess að grípa til ýmissa ráðstafana sem teljast óvenjuleg.

„Það sem meira er, þegar kemur að deilum um hvað sé vísindarannsókn eða ekki þá er það ekki Persónuverndar að úrskurða um það heldur vísindasiðanefndar.“

Mikil völd spilli fólki

Kári segir Persónuvernd fara með gífurleg völd innan síns sviðs en nú sé stofnunin að taka það vald og fara langt út fyrir það svið sem henni er markað. „Innan síns sviðs hefur stofnunin svo mikið vald að það getur verið að það fari illa með það fólk sem þar vinnur svo það fer bara með valdið hvert sem því sýnist.“

Tilkynning barst frá fyrirtækinu fyrr í dag og þar segir að fyrirtækið þurfi að hugsa alvarlega hvort það sé skynsamlegt að halda áfram raðgreiningu á smitum. Ljóst sé að það sé eflaust glæpur í augum persónuverndar líka.

Kári segir framhaldið þá verða skoðað eftir helgi. Að lokum segir hann: „Samfélagið hangir á brúninni. Ástandið er svo slæmt að við erum að svipta fólk frelsi, loka það inni heima hjá sér og annar staðar í sóttkví og einangrun. Við bönnum fólki að koma saman því pestin er svo alvarleg. Svo þegar menn reyna að bregðast við henni á eðlilegan máta með því að búa til skilning um það sem ekkert er vitað um til að geta sinnt klínískri þjónustu, þá kemst Persónuvernd að því að um glæp sé að ræða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert