Lyflækningadeild Sjúkrahússins á Akranesi hefur verið lokað og verður hún lokuð í að minnsta kosti tvo til þrjá daga. Þá hefur starfsfólk verið sent í sóttkví og sjúklingar sömuleiðis. Ástæðan er sú að sá sem greindist fyrst með Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar hér á landi lá á deildinni.
Sýnatökur eru í gangi sem stendur að sögn Jóhönnu Fjólu Jóhannesdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands.
„Við höfum verið í skimunum og þær eru aftur framkvæmdar í dag,“ segir Jóhanna í samtali við mbl.is en RÚV greindi fyrst frá.
Þetta hlýtur að hafa talsverð áhrif á starfsemi spítalans?
„Já. Þegar svona er getum við ekki tekið við sjúklingum sem annars þyrftu að koma á deildina.“
Ómíkron-smitin sjö sem greinst hafa hér á landi hafa öll verið rakin til Akraness.
Afbirgðið hefur valdið usla víða um heim þó enn sé óvíst hvort það sé meira smitandi en fyrri afbrigði og hvort það eigi auðveldara með að komast fram hjá vörninni sem bóluefnin sem eru í umferð veita.
Í samtali við mbl.is í gær sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að til þessa hafi enginn smitaður af Ómíkron-afbrigðinu veikst alvarlega eða andast úr Covid-19.
Þá sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við mbl.is í gær að hann stæði við fyrri fullyrðingu sína um að viðbrögðin vegna Ómíkron-afbrigðisins séu umfram það sem gögn gefi efni til.
Fréttin hefur verið uppfærð