Þóra Birna Ingvarsdóttir
Vatn er horfið úr lindum og sprænum í Rangárbotnum. Það á það til að gerast, en vekur nú athygli í ljósi skjálftavirkni og aukinnar þenslu í Heklu.
Í aðdraganda þess þegar Hekla gaus árið 1947 var vatnsþurrðin nefnilega á við það sem nú er. Páll Imsland er jarðfræðingur og hefur vakið athygli á þessu.
„Það er löngu ljóst að Hekla er nánast tilbúin að gjósa hvenær sem er,“ segir Páll í samtali við blaðamann.
Jarðskjálfti af stærðinni 5,2 varð í Vatnafjöllum suður af Heklu 11. nóvember síðastliðinn. Ekki hefur þótt nærtækt að tengja þann skjálfta, og þá skjálfta sem enn fylgja í kjölfarið, við að gos í Heklu sé yfirvofandi.
Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emerítus, ræddi um þensluna í Heklu í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu 4. nóvember.
Þrýstingurinn sem veldur þenslunni virðist eiga upptök á 15 til 20 kílómetra dýpi, þar sem kvikan safnast fyrir og þaðan hefur hún komið í fyrri gosum.
Þenslan veldur aflögun sem er eins og kúla á jarðskorpunni. Kúlan sem nú þenst út við Heklu er um 30 kílómetrar í þvermál og ekki kröpp. Það gefur hugmynd um hvar upptökin eru.
„Hekla er ekki vön að gefa merki um aðsteðjandi gos fyrr en mjög skömmu áður en það brýst út. Það gerir hana svo varasama,“ sagði Páll Einarsson.