Í áformum um frumvarp til sóttvarnalaga er lagt til að sóttvarnaráð verði lagt niður og að heilbrigðisráðherra skipi sóttvarnalækni. Nú er það verkefni að ráða sóttvarnalækni í höndum landlæknis.
Áformin eru nú í Samráðsgátt stjórnvalda og er opið fyrir umsagnir þar til og með 30. desember.
Verði áformin að frumvarpi sem verða samþykkt á Alþingi mun „fjölskipuð farsóttanefnd taka að hluta við tillögugerð um opinberar sóttvarnaráðstafanir sem eru á hendi sóttvarnalæknis í dag.“ Sú nefnd mun þá einnig taka við verkefnum sóttvarnaráðs ásamt sóttvarnalækni og heilbrigðisráðherra.
„Tilgangur frumvarpsins er m.a. að endurskoða stjórnsýslu sóttvarna,“ segir á Samráðsgátt stjórnvalda.
Útlit er fyrir að Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra mæli fyrir frumvarpinu í marsmánuði.
Starfshópur heilbrigðisráðherra sem stendur að baki frumvarpinu telur að frumvarpið sem um ræðir sé nauðsynlegt til þess að skýra betur ákvarðanatöku, stöðu sóttvarnalæknis innan stjórnsýslunnar í þeim tilgangi að skýrt sé í lögunum að sóttvarnalæknir sé sjálfstæður gagnvart öðrum embættismönnum innan stjórnsýslunnar.
Formlegt samráð um frumvarpið hefur ekki farið fram en starfshópurinn hefur fundað með Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni og Ölmu D. Möller landlækni á aðskildum fundum.