„Það er miður að það sé ekki skilningur á því að þetta sé rétta niðurstaðan að okkar mati samkvæmt skilgreindum lögum,“ segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, í samtali við mbl.is um viðbrögð Kára Stefánssonar, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, við úrskurði stofnunarinnar þess efnis að fyrirtækið hafi með þjónustu við heilbrigðisyfirvöld í heimsfaraldrinum framið glæp.
„Niðurstaðan er hjá okkur og ef fólk unir henni ekki þá er það bara næsta skref,“ segir Helga en málið snýr í megindráttum að því að sóttvarnalæknir tók þá ákvörðun í samráði við Íslenska erfðagreiningu að kanna hversu stór hundraðshluti landsmanna hefði myndað mótefni við veirunni.
Skoðað var þá mótefni í blóði þeirra sem höfðu smitast og sýkst alvarlega og því voru tekin sýni úr einstaklingum sem lágu sýktir inni á Landspítala. Var þetta gert til þess að skilja stöðu faraldursins í landinu svo hægt væri að sníða aðgerðir eftir vexti.
Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að sýnin hafi á engan hátt tengst sóttvarnarátaki og þar með hafi fyrirtækið brotið gegn persónuverndarlögum.
Spurð út í ummæli Kára um að það sé ekki Persónuverndar að úrskurða málið heldur vísindasiðanefndar, segir Helga það ekki rétt.
„Þetta snýst ekki um það, við erum ekki að fara inn á valdsvið vísindasiðanefndar. Það er valdsvið siðanefndarinnar að ákvarða hvort um sé að ræða vísindarannsókn eða ekki en hvernig persónuupplýsingar eru unnar í þessu umhverfi er mat Persónuverndar samkvæmt núgildandi lögum.“
Helga nefnir að Persónuvernd er sjálfstæð stofnun og því sé ekki hægt að kæra ákvörðunina til ráðuneytis heldur þurfi að höfða mál en Kári hefur sagt að Íslensk erfðagreining muni gera það.
„Fyrirtækið hefur fullan rétt á að sækja málið fyrir dómstólum ef það telur þess þurfa,“ segir Helga.