Gígjukvísl í hámark á sunnudag

Þungur straumur og mikið vatn var í Gígjukvísl þegar þessi …
Þungur straumur og mikið vatn var í Gígjukvísl þegar þessi mynd var tekin síðdegis í gær. Ljósmynd/Grétar Sigurðsson

Vatnsrennsli í Gígjukvísl var síðdegis í gær um 1.600 rúmmetrar á sekúndu og jókst hratt. Búist er við að vatnsmagn verði í hámarki á sunnudag. Allt fylgir þetta hræringum í Grímsvötnum, en íshellan yfir þeim hefur sigið um 27-28 metra á sl. tíu dögum. Því fylgir að vatn langt umfram meðalrennsli streymir nú undan Skeiðarárjökli í farveg Gígjukvíslar.

Starfsmenn Vegagerðar fylgjast vel með atburðarásinni í Grímsvötnum, en talið er ólíklegt að jökulhlaup hafi áhrif á samgöngur. Kemur þar til að núverandi brú á Gígjukvísl, sem var tekin í notkun 1998, var hönnuð með það fyrir augum að standast minni jökulhlaup, 3.000-5.000 rúmmetra á sekúndu. Í stærri hlaupum væri mögulegt að rjúfa veg og hleypa vatni fram hjá án þess að brúin eða mannvirki henni tengd skemmdust.

„Við erum á vaktinni við Gígju og fylgjumst með stöðu mála. Ég hef þó í sjálfu sér litlar áhyggjur af brúnni, sem á mikið inni,“ sagði Gunnlaugur Rúnar Sigurðsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Höfn, í samtali við Morgunblaðið. Ágætt veður var í gær við Gígjukvísl og í Öræfum; léttskýjað og fimm stiga frost. Spáð er svipuðu veðri á svæðinu næstu daga.

Vísindamenn hafa sagt að með hlaupi í Grímsvötnum, það er þegar léttir á vatnsmagni og þar með þrýstingi á svæðinu, aukist líkurnar á eldgosi. Ekki er þó af neinni vissu hægt að segja til um hvort framvindan verði nákvæmlega sú. sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka