„Gosinu þannig séð lokið í bili“

Eldgosið hófst 19.mars.
Eldgosið hófst 19.mars. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við getum sagt að þessum fasa sé lokið í sjálfum sér,“ segir Ármann Hösk­ulds­son, eld­fjalla­fræðing­ur og pró­fess­or við HÍ, í samtali við mbl.is um lok eldgossins í Geldingadölum en rík­is­lög­reglu­stjóri í sam­ráði við lög­reglu­stjór­ann á Suður­nesj­um af­lýsti óvissu­stigi í gær. 

Ármann minnist á að engin virkni sjáist á vefmyndavélum og hitastigið hafi minnkað stöðugt. Ekki hefur sést til hraun­flæðis frá gígn­um í Geld­inga­döl­um frá 18. sept­em­ber. 

Dr. Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur.
Dr. Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur. mbl.is/Golli

„Það sem truflar okkur er það að þetta er eldgos sem við höfum aldrei séð áður, sem sagt dyngjugos. Við vitum í sjálfu sér ekki hvernig þau ganga fyrir sig,“ segir hann.

Þá nefnir Ármann að síðast hafi verið dyngjugos fyrir 2.500 árum og að eldgos í dyngjum sem hafa verið skoðaðar hafa staðið yfir í 50 til 150 ár. 

Veðurstofunnar og almannavarna að lýsa yfir goslokum

Ármann segir það vera Veðurstofunnar og almannavarna að lýsa formlega yfir goslokum. „Í sjálfu sér ef búið er að aflétta óvissustigi þá er gosinu þannig séð lokið í bili.“

Hann segir að áfram haldist hiti í hrauninu og nefnir að í Vestmannaeyjum hafi verið hiti í hrauninu eftir Heimaeyjargosið í nærri 20 ár. 

Hvernig horfir þú á eldgosið í Geldingadölum?

„Þetta er eitt fallegasta eldgos sem ég hef séð og sérstaklega vegna þess að það var svo rólegt á tímabilum og því svo auðvelt að komast að því,“ segir Ármann. 

Hann segir að verið sé að vinna úr heilmiklum gögnum varðandi gosið og muni sú vinna vara í einhver ár. 

„Þessi gögn eru í sjálfu sér mjög merkileg og veita okkur hugmyndir um hvernig svona hraungos ganga fyrir sig. Við erum að reyna að ráða í hvernig mismunandi tegundir af eldgosum ganga fyrir sig.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert