Íshellan í Grímsvötnum hefur lækkað um 50 metra frá því að hún tók að síga í byrjun mánaðarins. Hlaup í Grímsvötnum hefur enn ekki náð hámarki, en vatnsrennsli í ánni er nú um 2.200 rúmmetrar á sekúndu. Venjulega er rennslið um 100 rúmmetrar á sekúndu, en talið er að hámarksrennsli gæti náð yfir 4.000 rúmmetrum á sekúndu.
„Íshellan heldur bara áfram að síga, komið um 50 metra sig frá upphafi. Við erum ekki búin að ná hámarki í hlaupinu enn þá,“ segir Bjarki Kaldalón Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands. Mælingar fóru fram í Gígjukvísl í morgun og aftur snemma í kvöld.
„Annars er áfram lítil skjálftavirkni, ísskjálftavirkni og hlaupórói en ekki gosórói,“ segir Bjarki.
Talið er að hlaupið nái hámarki á morgun. „Það er svolítið óvissa í þessu enn þá. Það kemur betur í ljós á morgun. Það er óvissa um það hvort það verði gos eða ekki, það verður að koma í ljós. En það eru engin merki um að það sé að fara gjósa núna,“ segir Bjarki.