„Já, hvar eigum við að byrja?“ spyr Margrét Erla Guðmundsdóttir, bókari, nýútskrifaður jógakennari, fyrrverandi ferðaþjónustuvalkyrja og Landsbankastarfsmaður, sem hefur heldur betur fengið að bergja á kaleik lífsins, hvort tveggja beiskum og sætum, þrátt fyrir tiltölulega ungan aldur, rétt rúm 40 ár.
Margrét er Breiðhyltingur, þó búsett í Mosfellsbæ eins og sakir standa, „ég endaði bara óvart hér en kann mjög vel við mig hérna,“ játar hún þrátt fyrir að sakna æskuáranna í Vesturberginu í Breiðholti þar sem hún gekk í Hólabrekkuskóla og lék sér úti á götu í félagi við jafnaldra áhyggjulausra ungdómsáranna.
„Ég fór aðeins aftur á æskuslóðirnar 2013, stoppaði reyndar bara í tæpt ár og get nú ekki sagt að mér hafi líkað jafn vel og mér gerði þegar ég var yngri, því miður,“ segir Margrét, Reykvíkingur sem þó rekur ættir sínar vestur á Hornstrandir. „Ég hef nú ekki komið þangað síðan ég var 14 ára, manni líður alltaf eins og hræsnara þegar maður er að rekja ættir sínar eitthvert og veit svo ekkert um staðinn,“ segir Margrét og hlær dátt.
„Ég kláraði nú ekki stúdentspróf, var svolítill „rebel“, Breiðhyltingurinn, fór bara að heiman 15 ára, ég var í mikilli uppreisn gegn fósturforeldrum mínum og ósammála þeim í einu og öllu svo ég brá bara á það ráð að fara að heiman. Ég var að leigja mér herbergi í Seljahverfinu, í FB og að vinna og eignast kærasta og skemmta mér og þetta gekk bara ekki upp svo ég hætti bara í skólanum frekar snemma, ég held ég hafi klárað eina önn,“ segir Margrét og skellihlær, en síðar lá leið hennar í Viðskipta- og tölvuskólann og bókaranám og þar einhvers staðar inn á milli í starf í Landsbanka Íslands.
„Það var eiginlega bara óvart, ég sótti bara um eins og hver annar, var heppin og fékk strax vinnu. Fór að vinna í svokallaðri bakvinnslu lífeyrissjóða og þarna var ég í sjö ár. Þá var mér farið að leiðast. Mér fannst skrifborðið leiðinlegt og Excel-skjöl enn leiðinlegri svo ég hætti bara í bankanum, stökk út í djúpu laugina og fór að flytja inn danska hönnunarvöru sem var gríðarlega gaman,“ segir Margrét.
Hún hóf þá viðskipti við hollenska feðga, sem ráku eins konar góðgerðarsamtök og styrktu meðal annars heimili fyrir bágstadda fíla í Asíu. „Þar er fíll sem heitir Mosha, sem steig á jarðsprengju þegar hún var pínulítil og missti annan framfótinn. Hún þarf nýjan gervifót á hverju ári,“ útskýrir Margrét, sem hefur flutt inn varning frá feðgum þessum, en þeir velja reglulega borg einhvers staðar í heiminum, sem svo aftur tilnefnir listamann og hann hannar styttu af fíl sem selst svo í númeruðum eintökum og rennur ágóðinn til heimilisins í Asíu.
En skjótt skipast veður í lofti. „Svo gerist það, í algjörri mótsögn við allt sem mig langaði að ég fór út í hótel- og veitingarekstur, maðurinn minn kom heim í desember [2013] og tilkynnti mér að við værum orðin eigendur gistiheimilis og veitingastaðar,“ segir Margrét frá, en þetta var veitingastaðurinn Písa, síðar Veiðikofinn, við Lækjargötu og gistirými í sömu byggingu. „Við vorum náttúrulega heppin að Elli var þarna, hann er með allt upp á tíu, algjör meistari,“ segir Margrét og á við Erlend Eiríksson, kokk, þjón, leikara, lögfræðing og reyndar margt fleira, sem lesendur Morgunblaðsins fengu að kynnast lítillega í afmælisviðtali Péturs Atla Lárussonar blaðamanns við hann á dögunum.
Óstytta útgáfu viðtalsins við Margréti Erlu má nálgast í Morgunblaðinu í dag.