Misskilin umhyggja

Logi Bergmann.
Logi Bergmann.

Pistill Loga Bergmanns í Sunnudagsblaði Morgunblaðsis:

Stundum er sagt að það eigi ekki að laga það sem ekki er bilað. Og stundum er líka sagt að það sé óþarfi að fá einhvern til að vinna verk sem þegar er unnið. Og svo var okkur kennt að henda ekki peningum.

Mér finnst þetta allt vera pæling þegar ég les í fréttum um fjárlagafrumvarp að ríkið ætli að opna sína eigin streymisveitu í gegnum Kvikmyndasjóð Íslands. Nú ætla ég ekki að vera leiðinlegur en þetta hljómar eins og hér séu hugmyndir ekki hugsaðar til enda.

Mér finnst líklegast að einhver hafi hallað sér aftur í stólnum og hugsað: Hvenær sá ég eiginlega Stellu í orlofi síðast? Eða Skilaboð til Söndru? Var ekki Bubbi Morthens í henni? Það væri nú gaman að sjá hana aftur.

Þetta er svo sem ekkert galin pæling. Við eigum býsna merkilega kvikmyndagerðarsögu, þótt hún sé ekki löng. Vissulega gæti verið gaman að sjá mikið af gamla efninu sem hefur verið framleitt. Það er örugglega einhver sem væri til í að hámhorfa á Undir sama þaki eða Fornbókabúðina. Jafnvel einhver sem væri til í að eyða einu kvöldi í Tríó. En höldum við í alvöru að það sé ekki til önnur lausn á því en að ríkið stökkvi til og búi til apparat í kringum það?

Í fyrsta lagi eigum við íslenskar streymisveitur. Sjónvarp Símans og Stöð 2 eru með fínar veitur og RÚV meira að segja líka, þótt hlutir hverfi oft þaðan út fullsnemma. Það væri örugglega ekki meira en eitt símtal sem þyrfti til að fá þau til að setja upp eina möppu sem héti íslenskar kvikmyndir.

Það er nefnilega það sem þessi fyrirtæki eru að gera núna. Síminn og Stöð 2 eru einmitt í þeim bransa að selja aðgang að íslensku efni. Það er stundum erfitt enda hörð samkeppni sem kemur frá ríkinu í gegnum RÚV sem nær til sín stórum hluta auglýsingatekna. Við verðum sennilega öll löngu dauð áður en það breytist.

En hafið ekki áhyggjur. Þessi nýja streymisveita á ekki að vera í samkeppni við aðrar! Í alvöru? Á hún sem sagt að vera svo glötuð að hún hafi ekki áhrif á hinar? Það er mjög áhugaverð niðurstaða.

Og kannski er það bara ég en mér finnst þetta allt soltið óljóst. Það á að setja 510 milljónir „í framkvæmd kvikmyndastefnu með áherslu á bætt sjóðakerfi og starfsumhverfi“ og þetta er sem sagt hluti af því. Við fáum ekki að vita hvernig það skiptist og því síður hver framlögin verða næstu ár. En í ljósi reynslunnar getum við gert ráð fyrir því að þetta sé komið til að vera og orðið að fastri línu á fjárlögum. Það er alltaf hressandi.

Mér finnst þetta í alvöru eins og ríkið ætlaði að opna verslun þar sem hægt væri bara hægt að kaupa íslenskar vörur. Þar sem maður gæti valsað um og náð sér í Flórubúðing, Sólblóma, Vallas og súrsaða selshreifa.

En þið megið ekki misskilja mig. Kvikmyndagerð er mikilvæg og hefur svo sannarlega skilað sínu. Ekki aðeins efnahagslega heldur ekki síður fyrir sjálfsmynd þjóðar. Við eigum að hlúa að henni. En kommon!

Hlutverk ríkisvaldsins er að koma inn þar sem þess er þörf en ekki síður að láta hluti eiga sig þar sem engin þörf er á afskiptum. Lausnin er að leyfa öðrum að vaxa og dafna í friði í stað þess að kæfa allt með misskilinni umhyggju.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert