Gos í Grímsvötnum „í spilunum“

„Nú er verið að bíða eftir því hvort það gerist,“ …
„Nú er verið að bíða eftir því hvort það gerist,“ sagði Ari um mögulegt gos. mbl.is/Árni Sæberg

Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur segir að gos í Grímsvötnum sé „í spilunum“ þar sem eldstöðin sé komin á tíma, eða eins og Ari orðar það „orðin ófrísk.“ Útlit er fyrir að hlaup úr Grímsvötnum nái hámarki í dag. 

Ari mætti í viðtal í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. 

Þar sagði hann Grímsvötn eina virkustu eldstöð landsins. Fargléttingin sem verður við hlaup gæti komið af stað gosi, þannig varð það árið 2004 en það hefur ekki alltaf farið saman, gos og hlaup. 

„Nú er verið að bíða eftir því hvort það gerist,“ sagði Ari um mögulegt gos. 

Mælitæki eru við Grímsvötn sem ættu að leiða í ljóst hvort gos væri í aðsigi eða komið í gang. 

Frá stóru gosi í Grímsvötnum árið 1996.
Frá stóru gosi í Grímsvötnum árið 1996. mbl.is/RAX

Hefur gosið á 5 til 10 ára fresti

Kristján Kristjánsson þáttastjórnandi spurði Ara hvort gos væri í spilunum.

„Já, já það er í spilunum. Það er einfaldlega vegna þess að það eru 10 ár síðan síðast gaus,“ sagði Ari og bætti við: „Grímsvötn eru orðin ófrísk.“

Þar átti hann við að það gýs almennt í Grímsvötnum með fimm til tíu ára fresti. Ari sagði að ef gos yrði í Grímsvötnum þá yrði það gjóskugos.

„Þetta er eldstöð sem hefur gosið á löngum tíma á 5 til 10 ára fresti,“ sagði Ari sem telur góðan möguleika á að gos verði skömmu eftir hlaup úr Grímsvötnum eða nokkrum dögum síðar.

Almennt eru gos úr Grímsvötnum viðráðanleg en þannig var staðan reyndar ekki árið 2011 þegar gosið olli vandræðum í sveitum sunnan við Vatnajökul.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert