Miðað við áform fasteignafélagsins Reita mun húsnæðið að Hallarmúla 2, sem einu sinni hýsti verslunina Tölvutek og hýsir nú verslun Fjallakofans, víkja fyrir íbúðahúsnæði.
Það eru þó aðeins áætlanir og segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, í samtali við mbl.is að enn geti margt breyst.
„Miðað við áform okkar um þetta svæði – sem eru vissulega svolítið langt fram í tímann – þá myndi þessi lóð fá annað hlutverk,“ segir Guðjón.
Guðjón segir einnig að margar ólíkar hugmyndir hafi komið fram við skipulagningu lóðasvæðisins, sem telur einnig til Suðurlandsbrautar 2, sem er lóð á bakvið Hilton-hótelið á Suðurlandsbraut. Það er steingráa nýbyggingin sem sést á teikningunni hér að ofan.
„Hér áður fyrr var búið að teikna upp hótel í bakgarðinum á Suðurlandsbraut 2 og svo voru hugmyndir um bílastæðahús, þannig mönnum hefur dottið ýmislegt í hug. En við keyptum þetta húsnæði og sjáum tækifæri í því að þróa lóðina þarna bakvið Hilton-hótelið í góðu samstarfi við borgina og nálæga lóðarhafa.“
Fyrirhuguð nýbygging Reita í Hallarmúla verður íbúðarhúsnæði, eins og áður segir, og er áætlað að þar rúmist um 120 íbúðir.
Guðjón segir að borgaryfirvöld taki vel í hugmyndina.
„Þetta þarf auðvitað að fara til þar til bærra ráða og nefnda sem taka þessi mál til skoðunar. Við höfum kynnt þessar hugmyndir fyrir borgaryfirvöldum og fengið jákvæðar undirtektir. Þetta ferli er svosem bara að hefjast,“ segir Guðjón.
Hér má finna áform Reita. Teikning af hugmyndum um Hallarmúla 2 og Suðurlandsbraut 2 er að finna á blaðsíðu 22.