Tíu konur myrtar á dag

Edith Olivares Ferreto, framkvæmdastjóri Amnesty International í Mexíkó, og baráttukonan …
Edith Olivares Ferreto, framkvæmdastjóri Amnesty International í Mexíkó, og baráttukonan Wendy Andrea Galarza halda ótrauðar áfram að berjast fyrir réttindum kvenna í Mexíkó. mbl.is/Ásdís

Edith Olivares Ferreto, framkvæmdastjóri Amnesty International í Mexíkó, og baráttukonan Wendy Andrea Galarza voru á Íslandi í vikunni til að vekja athygli á kúgun, ofbeldi og morðum kvenna í heimalandi þeirra Mexíkó. Þar eru tíu konur myrtar dag hvern.

Í Mexíkó eru réttindi kvenna fótum troðin, morð á konum daglegt brauð og ofbeldi og nauðganir viðgangast án afskipta lögreglu, sem sjálf er oft gerandinn. Stjórnvöld bregðast ekki við kvennamorðunum og segja þær Edith og Wendy að í langflestum tilvikum sé enginn dæmdur. Konur víða um land reyna nú að sameinast og mótmæla en lenda þá oft sjálfar í lögregluofbeldi.

Wendy er ein þeirra kvenna, en fyrir ári varð hún fyrir skotum lögreglu og er enn að glíma við eftirköstin. Hún hættir þó aldrei að mótmæla því óréttlæti sem mexíkóskar konur eru beittar.

Morðingjar kvenna sleppa

Kvenréttindi og almenn mannréttindi eru það sem þær Edith og Wendy brenna fyrir, og þrátt fyrir hættuna á ofbeldi og mannréttindabrotum halda þær ótrauðar áfram sinni baráttu.

„Við höfum verið að vinna hjá Amnesty að réttindum kvenna núna í fimm ár og í fyrra gáfum við út bækling um réttindi kvenna og þá kúgun sem við verðum fyrir þegar við förum út að mótmæla. Við segjum þar frá því að í mótmælum þann 9. nóvember í fyrra varð Wendy fyrir ofbeldi. Í ár völdum við hana því til að vera röddina sem talar fyrir réttindum kvenna,“ segir Edith sem komin er alla leið til Íslands ásamt Wendy til að vekja athygli á því óréttlæti og ofbeldi sem konur í Mexíkó búa við dagsdaglega. Þær voru sérstakir gestir á málþingi hjá Íslandsdeild Amnesty um stöðu kvenna í Mexíkó og eru á leið til fleiri landa Evrópu til að opna augu heimsins fyrir vandamálum kvenna í Mexíkó. Heimsóknin var hluti af árlegri, alþjóðlegri herferð Amnesty International, Þitt nafn bjargar lífi, en hægt er að skrifa undir mál hennar og fleiri þolenda á amnesty.is.

„Þarna eru stór vandamál og hafa verið lengi. Það sem hefur aukist eru kvennamorð en tíðni þeirra er ofboðslega há. Í fyrra voru 3.723 konur myrtar og í ár, frá janúar til október, hafa 3.100 konur verið myrtar og flestar af hendi karlmanna sem þær þekkja,“ segir Edith og hún segir ástæðurnar margar og flóknar.

„Fyrst og fremst er Mexíkó mikið karlaveldi og réttindi kvenna fótum troðum. Svo er ekkert sem heitir fyrirbyggjandi aðgerðir frá ríkinu. Almennt séð er mikið ofbeldi gagnvart konum og embætti saksóknara gerir lítið og sópar vandamálunum undir teppið. Af öllum þessum morðum eru mjög fá rannsökuð formlega. Fjölskylda fórnarlambanna verður fyrir hótunum frá ríkinu, hreint út sagt,“ segir Edith sem segir nánast vonlaust fyrir fjölskyldur kvennanna að fá réttlætinu fullnægt.

„Fjölskyldan þarf sjálf að rannsaka morðið, og ég meina bókstaflega, að safna gögnum og fleira. Það geta liðið áratugir þar til einhver er ákærður og eru 98% af morðum í Mexíkó aldrei rannsökuð,“ segir hún.

„Fólk í þessari stöðu upplifir mikla niðurlægingu og vonleysi.“

Reiðar og hræddar

Wendy, sem er þrítug, er mikill jafnréttissinni og vill að heimurinn heyri hennar sögu.

„Ég er baráttukona og femínisti og fyrst og fremst mjög reið. Það er ekkert gert í Mexíkó og engin réttindi fyrir konur. Þessar konur sem eru myrtar eru ekki bara ókunnugar konur; þær tilheyra okkar litla samfélagi og geta verið fjölskyldumeðlimir, vinkonur og vinnufélagar. Það er verið að myrða konur í okkar samfélagi og við erum reiðar, en við erum líka hræddar. Það er mikil hræðsla meðal kvenna. Það sem kom fyrir mig getur komið fyrir aðra og konur hugsa; er ég næst?“ segir Wendy.

„Þetta er vítahringur og það er ekkert annað hægt en að sameinast og fara út að mótmæla. En sumar konur eru of hræddar og sitja heima,“ segir Edith og bætir við að nú sé vakning í gangi hjá konum í Mexíkó.

Edith og Wendy halda áfram að berjast.
Edith og Wendy halda áfram að berjast. mbl.is/Ásdís

Varð fyrir byssuskotum

Við ræðum ofbeldið sem Wendy varð fyrir þennan örlagaríka dag í nóvember 2020.

„Við vorum alls konar konur að mótmæla fyrir utan embætti saksóknara í Cancun, en þarna voru um þúsund konur samankomnar. Við heyrðum allt í einu hljóð eins og skothvelli en vorum ekki vissar því það var svo mikill hávaði. Það kom í ljós að þetta voru byssuskot, en lögreglan var að hleypa af byssum, bæði upp í loft og að mannfjöldanum. Ég varð fyrir byssuskotum,“ segir Wendy.

„Ég fann ekki fyrir því þegar ég fékk í mig skotin. Lögreglan var að misþyrma mér og sagði mér að drífa mig í burtu. Ég fór með kærastanum mínum á mótorhjóli og við fórum heim og þá tók ég eftir því að ég var öll í blóði,“ segir Wendy en hún dreif sig beint á bráðamóttöku en var flutt þaðan með sjúkrabíl á spítala þar sem hún undirgekkst aðgerð.
„Byssukúlan sem fór í fótinn fór í gegn. Hin kúlan fór inn í rassvöðva og þaðan í sköpin og mér var sagt að þar væri sár. Ég áttaði mig þá á alvarleika málsins,“ segir Wendy og segist alls ekki ætla að hætta að mótmæla þrátt fyrir allt.

„Það kemur ekki til greina að hætta að mótmæla. Við erum búnar að búa til samtök sem heita Nefnd níu og mótmælum við níunda hvers mánaðar. Til að gleyma ekki því sem gerðist þann níunda nóvember. Við megum ekki láta svona gleymast,“ segir Wendy og segir að í þessum mótmælum klæði mótmælendur sig allir eins.
„Lögreglan leynist þar líka og klæðir sig þá eins og við.“

Þannig að dómskerfið er svo rotið að konur eru ekki einu sinni öruggar í návist lögreglu?

„Einmitt, við erum ekki öruggar heima, úti á götu, í vinnunni og núna ekki heldur þegar maður fer út að mótmæla. Við sem mótmælum getum líka lent í fangelsi, verið pyntaðar eða nauðgað.“

Konur í Mexíkó-borg mótmæltu þann 25. nóvember á götum borgarinnar …
Konur í Mexíkó-borg mótmæltu þann 25. nóvember á götum borgarinnar á degi tileinkuðum baráttu gegn ofbeldi á konum. AFP

Hægt er að skrifa undir mótmælaskjal á www.amnesty.is

Nánar er rætt við Edith og Wendy í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 




Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert