Ekki samhljómur í fjárlögum og stjórnarsáttmála

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Það skýtur skökku við að útgjöld ríkisins til ferðaþjónustu dragist saman um hálfan milljarð í nýju fjárlagafrumvarpi á sama tíma og markmiðið er að fá 1,4 milljónir ferðamanna til landsins á næsta ári, segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Hún bætir við að óvissan sé enn gríðarlega mikil í þessari atvinnugrein og að enn sjáist ekki til lands.

„Það er verið að skera niður viðbótar fjárframlög sem voru út af faraldrinum, til dæmis til rannsókna og til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Þetta er tímabundin innspýting sem að okkar mati hefði átt að halda áfram vegna þess að þetta er ekkert búið og við þurfum nauðsynlega að styrkja stoðirnar enn betur fyrir greinina.“

Lykilatriði að auka markaðssetningu

Að sögn Bjarnheiðar bendir allt til þess að um leið og öllum hömlum verður aflétt verður gríðarlegur uppgangur í ferðaþjónustugeiranum með tilheyrandi tækifærum fyrir hagkerfið. Sé því mikilvægt að halda áfram að fjárfesta í uppbyggingu og viðhaldi í þessum geira svo að nauðsynlegir innviðir séu til staðar þegar að sú stund rennur upp.

Í því samhengi segir hún einnig lykilatriði að auka fjármagn í markaðssetningu, meðal annars í markaðsverkefnið Ísland- saman í sókn, enda ekki sjálfgefið að hingað komið 1,4 milljónir ferðamanna líkt stefnt er að.

„Síðan finnst okkur stjórnarsáttmálinn og fjárlagafrumvarpið ekki endilega í samhljómi. Það virðist þurfa að uppfæra eitt og annað í fjárlagafrumvarpinu miðað við það sem stendur í sáttmálanum. Þar eru talin upp verkefni og hlutir sem á að fara í en hins vegar fylgir því ekki fjármagn virðist vera. Okkur finnst það ekki nógu gott. Ferðaþjónustan þarf á því að halda að vera undir smásjá. Við erum hrædd að það sé verið að sleppa takinu af henni of snemma.“

Þvert ofan í markmið í umhverfismálum

Þá segir Bjarnheiður einnig mikilvægt að lögð sé meiri áhersla á að dreifa ferðamönnum víðar um landið til að létta álaginu á fjölfarna ferðamannastaði og auka flæði á „köld svæði“ á landsbyggðinni. Hefði hún því gjarnan viljað sjá áframhaldandi viðbótarframlög til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða.

„Að reyna ekki að undirbúa staðina og náttúruna fyrir aukinn fjölda ferðamanna finnst mér skjóta skökku við miðað við öll önnur markmið um loftslagsmál og sjálfbærni.“

Gera ráð fyrir að ferðaþjónustan taki mesta plássið

Samkvæmt fyrirhugaðri uppstokkun ráðuneyta mun ferðaþjónustan brátt tilheyra ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðuneyti, sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir mun stýra. Áður heyrði atvinnugreinin undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Innt eftir vibrögðum segir Bjarnheiður breytingarnar leggjast vel í hana. „Við lítum svo á að menningarmálin séu komin til ferðaþjónustunnar en ekki öfugt. Má alveg segja að menningin sé hluti af ferðaþjónustunni, þó að náttúran sé miklu stærri hluti. Þá er menningin samofin öllu því sem við erum að gera.“

Þá kveðst hún búast við því að ferðaþjónustan muni taka mesta plássið innan ráðuneytisins eins og henni ber miðað við vægi hennar í hagkerfinu.

„Fyrir covid var ferðaþjónustan stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugeirinn og við teljum að hún verði það mjög fljótt aftur. Þetta er gríðarlegt tækifæri fyrir nýjan ferðamálaráðherra, að taka þátt í endurreisn ferðaþjónustunnar. Okkur finnst líka gott að það eru þarna færri málaflokkar þannig að það er meiri fókus sem gæti farið á ferðaþjónustuna. Það er eitthvað sem okkur hefur fundist vanta hingað til,“ segir Bjarnheiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert