Íbúasamtök Bústaða- og Fossvogshverfis hafa boðað til íbúafundar næsta miðvikudag í Réttarholtsskóla. Tilefni fundarins er fyrirhuguð þrenging Bústaðavegar og eru íbúar hverfisins ekki allir sammála um framkvæmdirnar.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, hafa boðað komu sína á fundinn. Gísli Kr. Björnsson, formaður íbúasamtakanna, segir íbúa hverfisins skiptast í tvennt hvað varðar afstöðu til framkvæmdanna. Þeir sem mótfallnir eru þrengingu vegarins benda á aukið umferðarálag í hverfinu og upplifa að borgaryfirvöld hlusti ekki á raddir íbúanna. Aðrir íbúar telja þéttingu byggðar spennandi kost fyrir hverfið.