16 manns greinst með Ómíkron-afbrigðið

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítala.
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítala. mbl.is/Ásdís

Alls hafa sextán manns greinst með Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar á Íslandi, samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum. Enn er margt á huldu varðandi hið nýja afbrigði og ekki er víst að það sé hættulegra en önnur afbrigði veirunnar. Þetta segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans í samtali við mbl.is.

Segist ekki missa svefn yfir hinu nýja afbrigði

Inntur eftir því segist Már ekki hafa neinar sérstakar áhyggjur af útbreiðslu nýja afbrigðisins á Íslandi enda sé honum ekki kunnugt um að það valdi alvarlegri veikindum en önnur afbrigði veirunnar.

„Þótt það sé smávægilegur blæbrigðamunur milli mismunandi stofna veirunnar þá valda þeir sama sjúkdómnum.“

Útlit sé þó fyrir að Ómíkron-afbrigðið smitist hraðar en önnur afbrigði en það skipti sennilega litlu máli í stóra samhenginu, að sögn Más.

„Það er alveg jafn mikið að gera á bráðamóttökunni og á spítalanum. Fyrir mér er umræðan um þetta nýja afbrigði eins og suð í eyrunum. Þótt þetta nýja afbrigði og umræðan um það sé vissulega áhugaverð þá breytir hún því ekki hvernig ég leggst til hvílu á kvöldin eða vakna á morgnana.“

Þrátt fyrir færri smit hefur innlögnum vegna veirunnar ekki fækkað.
Þrátt fyrir færri smit hefur innlögnum vegna veirunnar ekki fækkað. Ljósmynd/Landspítali

Innlögnum fjölgar enn þrátt fyrir færri smit

Þá veltir hann upp þeirri spurningu um það hvort Ómíkron-afbrigðið marki mögulega lok faraldursins.

„Eftir hundrað ár munu menn kannski segja að þetta afbrigði hafi orðið ofan á, þ.e.a.s. að það muni ganga út um allt en valda minnstu veikindunum og allt annað hverfur. Því þegar öll kurl eru komin til grafar mun einn stofn þessarar veiru taka yfir. Kannski verður það þetta afbrigði.“

Már segist ánægður með ákvörðun Willum Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra, um að framlengja þeim sóttvarnaraðgerðum sem hafa verið í gildi síðan 12. nóvember síðastliðinn, inntur eftir því.

„Þótt þetta sé vissulega íþyngjandi fyrir okkur öll þá held að þetta sé hárrétt ákvörðun því þótt nýgengi smita sé á niðurleið er fjöldi þeirra sem leggjast inn á spítalann vegna veirunnar enn á uppleið. Við erum því enn að súpa seyðið af kúfnum sem nú er að ganga niður og það er alveg í takt við það sem við höfum séð fyrr í faraldrinum.“

Spurður segist hann ekki vita hversu vel bólusetningar gagnast í baráttunni við þetta nýja afbrigði enda sé lítil reynsla komin á það hér á landi. Hann segir örvunarbólusetningar þó veita lang besta vörn gegn kórónuveirunni í heild sinni.

Frá bólusetningum barna á aldrinum 12 til 15 ára í …
Frá bólusetningum barna á aldrinum 12 til 15 ára í Laugardalshöll. Kristinn Magnússon

Vonar að börn verði bólusett við veirunni

Þá segist hann vona að börn á aldrinum 5-11 ára verði bólusett gegn veirunni von bráðar enda séu það þau sem hafi drifið yfirstandandi bylgju faraldursins áfram hér á landi.

„Ég veit ekki hvort það sé búið að ákveða gera það eða hvenær sú ákvörðun verður tekin en ég tel að bólusetning barna í þessum aldurshópi og örvunarbólusetningar eldri aldurshópa muni koma til með að hjálpa okkur mjög mikið í baráttunni við sóttina. Ég bind allavega vonir um það.“

Hvernig heldur þú að þátttakan verði í bólusetningum barna?

„Miðað við þau samtöl sem covid-göngudeildin hefur átt við foreldra sem eru veikir þá eru margir hverjir alveg æfir yfir því hvað þeir þurfa að vera lengi í sóttkví eða einangrun. Ég myndi halda að meginþorri foreldra vilji láta bólusetja börnin sín til að koma í veg fyrir þau óþægindi.

Árangurinn af bólusetningum barna í aldurshópnum 12-15 ára hefur verið alveg frábær. Það er bara enginn að veikjast í þeim hópi og ég myndi halda að það ætti að vera foreldrum hvatning til þess að láta bólusetja börn sín. Ef ég ætti börn á þessum aldri þá myndi ég sannarlega gera það,“ segir Már að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert