Betra kerfi mögulega komið í veg fyrir skerðingu

Starfmenn Landsnets að störfum.
Starfmenn Landsnets að störfum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Væru þær raflínur, sem fyrirhugað er að verði teknar í gagnið á næstu misserum, komnar í notkun hefði líklega verið hægt að komast að hluta hjá því að skerða raforkuflæði til stórnotenda með skerðanlega skammtímasamninga, eins og Landsvirkjun tilkynnti í gær að yrði gert þegar í stað.

Þetta segir Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs hjá Landsneti, í samtali við mbl.is.

Skerðing­in nær ekki bara til fiski­mjöls­verk­smiðja held­ur einnig til þeirra stór­not­enda sem eru með skerðan­lega skamm­tíma­samn­inga, t.d. gagna­ver og ál­ver. 

Þörf á „hryggjarstykki“

Sverrir segir í samtali við mbl.is að eins konar „hryggjarstykki“ í flutningskerfi raforku hér á landi verði til staðar þegar framkvæmdum á nýjum línum lýkur.

„Það er komin núna ný lína frá Fljótsdalsstöð upp í Kröflu og nú erum við að vinna í línu frá Kröflu til Eyjafjarðar, sem verður tilbúin á næsta ári. Til viðbótar við það þarf nokkra kafla, það er Blöndulína 3, sem er þá frá Eyjafirði og í Blöndu, svo er kafli eftir sem er þá frá Blöndu og að Holtavörðuheiði og loks frá Holtavörðuheiði niður í Grundartanga,“ segir Sverrir um áform Landsnets.

Framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets.
Framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets. Ljósmynd/Landsnet

Með þessu segir hann að verði komið „þokkalegt hryggjarstykki“ sem tengir vel saman flestar stóru virkjanir landsins við notendur raforkunnar.

En ef við hefðum haft þetta hryggjarstykki, hefðum við þá ekki þurft að skerða raforkuna?

„Maður kannski vill ekki alveg fullyrða um það, en það sem þó hefur komið fram er að í lok ágúst þá fór Hálslón á yfirfall. Það þýðir þá að Fljótsdalsstöð gat framleitt meiri orku en gat ekki komið henni frá sér. En ef við hefðum verið með sterkara kerfi sem getur flutt raforkuna suður þá hefðum við geta nýtt orkuna annars staðar og þannig hefðum við getað leyft Þórisvatni eða öðrum virkjanalónum að safna meira vatni,“ segir Sverrir og meinar með því að með sterkara flutningskerfi minnki líkurnar á því að raforka á einum stað fari til spillis á meðan vöntun er annars staðar.

Til viðbótar við lagningu nýrra lína í flutningskerfinu segir Sverrir að einnig sé þörf á að uppfæra það gamla. Hann bendir á að einhver hluti flutningskerfisins sé orðinn 50 ára gamall og að viðurkenndur gildistími þeirra sé einmitt um 50 ár.

„Svo er vert að nefna að Byggðalínan, hún verður 50 ára á næstunni og hefur nýst okkur vel. Svona timburstaurar endast í 50 ár þannig það er í raun komin tími á hana,“ segir Sverrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert