Stjórnarandstaðan sótti hart að Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, vegna friðlýsingar forvera hans í ráðuneytinu á elleftu stundu. Í kjölfarið fóru af stað fjörugar umræður um fjárveitingar ráðherra í aðdraganda kosninga.
Í svari við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar sagðist Guðlaugur ekki hafa vitað af þessari ráðstöfun forvera síns fyrr en í dag.
Bergþór vakti athygli á málinu í óundirbúnum fyrirspurnum en Bæjarins Besti greindi fyrst frá málinu í frétt í dag.
Sagði Bergþór þá „alveg hreint ótrúlega út að sjá að að kvöldi síðasta dags í embætti hafi fyrrverandi umhverfisráðherra friðað jörðina Dranga, sem mun ekki verið lítil óumdeild aðgerð og hefur veruleg áhrif á einn tiltekinn virkjunarkost sem í dag er í nýtingarflokki,“ og spurði Guðlaug í kjölfarið hvort hann vissi yfir höfuð af málinu og hvort hann ætlaði sér leysa það eða vinda ofan af því með einhverjum hætti.
Guðlaugur sagði atburðarlýsinguna „fréttir fyrir mig.“ Hann benti á að hann hefði ekki verið lengi í ráðuneytinu. „Mér hafði borist til eyrna eitthvað varðandi friðlýsingarnar en ekki þær áhyggjur sem háttvirtur þingmaður vísar hér til, það er eitthvað sem mér hefur ekki borist til eyrna.“
Þegar Bergþór ítrekaði spurninguna með vísan til mikilvægi svæðisins sem virkjanakosts sagði Guðlaugur þann tíma sem fráfarandi og verðandi ráðherrar hafa til umræðu við lyklaskipti vera takmarkaðan.
„Við höfum sammælst um það, og þurfti ekki neitt til, að setjast niður og fara yfir ýmis mál en hefur ekki gefist tími til þess. Hins vegar var það auðvitað ekki þannig, þegar við vorum að skiptast á lyklum, að við hefðum tíma til að fara yfir öll þau mál sem eru í gangi, ekki frekar en þegar ég afhenti hinum ágæta utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra lyklana.“
Eftir þessi orð Guðlaugs fóru aðrir þingmenn úr stjórnarandstöðunni að gagnrýna þessa ráðstöfun Guðmundar Inga harðlega.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, tók þar fyrstur til máls og gagnrýndi að málið hefði verið afgreitt án aðkomu þingsins að því:
„Að einn hæstvirtur ráðherra skuli hafa afgreitt þetta án nokkurs samráðs við þingið, án nokkurs samráðs við arftaka sinn, sem kemur greinilega af fjöllum, ekki þó fjöllum Vestfjarða, og gert þetta rétt áður en hann færði sig í annað ráðuneyti getur ekki talist í lagi að mati hæstvirts forseta Alþingis. Alþingi hlýtur að fá einhverja aðkomu að þessu máli.“
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, tók undir málflutning þingmanna Miðflokksins: „Alveg burt séð frá því hvað manni finnst um þessa friðlýsingu þá verð ég að taka undir að þetta eru alveg ótrúlega undarleg vinnubrögð.“
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sagði ráðstöfunina einstaklega umhugsunarverð að ríkisstjórnin hélt velli í kosningum.
„Óháð því hvað okkur þykir um akkúrat þær aðgerðir sem hér hafa komið til tals, þessa friðun í skjóli síðustu nætur, minna þær óneitanlega á aðgerðir einhverra sem telja sig þurfa að verja virkið áður en það fellur í óvinahendur. Þetta er svolítið sérstakt í ljósi þess að um er að ræða sömu ríkisstjórnarflokka.“
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar kallaði eftir því að Ríkisendurskoðun tæki hegðun ráðherra til sérstakrar athugunar. „Það verður að vera eitthvert aðhald með ráðherrum, framkvæmdarvaldinu, og þegar ráðherrar taka þá ákvörðun einir síns liðs að hafa ekkert þing hér að störfum í fjölda mánaða til að geta eftir eigin hentugleika dreift fjármunum almennings.“
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra kallaði eftir þroskaðri umræðu um málið áður en stórar ályktanir yrðu dregnar. „Hins vegar er því haldið fram að ráðherrar hafi frjálsar hendur um að dreifa peningum um samfélagið, eins og háttvirtur þingmaður nefndi hér áðan og algjörlega skautað fram hjá því að það er Alþingi sem fer með fjárveitingarvaldið.“