Þann 26. nóvember, tveimur dögum áður en ný ríkisstjórn var tilkynnt með tilheyrandi ráðuneytisfærslum, skrifaði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, undir friðlýsingu jarðarinnar Dranga í Árneshreppi. Bæjarins Besta greinir frá.
Friðlýsingin mun að öllu óbreyttu taka gildi þann 13. desember þegar ákvörðunin verður birt í B-deild Stjórnartíðinda. Umhverfisstofnun vísaði tillögu um friðlýsingu jarðarinnar til ráðuneytisins sama dag og hún var undirrituð.
Í samtali við mbl.is í mars sagðist Guðmundur Ingi vera með 15-20 staði og svæði sem hann hefði hug á því að friðlýsa fyrir lok kjörtímabils. Þar sagði hann Dranga vera eitt af þeim landssvæðum sem væru í vinnslu hjá Umhverfisstofnun.
Spurð hvort þessi friðlýsing kunni að hafa áhrif á fyrirætlanir um virkjun Hvalár segir í svari starfsmanns Umhverfisstofnunar, sem er líka formaður starfshóps um friðlýsingu Dranga, til Bæjarins besta að svæðið sé óbyggt víðerni en ákvæði laga um náttúruvernd á óbyggðu víðerni kunni að koma til athugunar:
„Ekki verður því séð að friðlýsingin rekist sérstaklega á við fyrirhugaða Hvalárvirkjun en hins vegar kann 54. gr. laga nr. 60/2013 að koma til skoðunar. Ákvæðið áskilur að ef starfsemi eða framkvæmdir utan friðlýsts svæðis, sem leyfisskyldar eru samkvæmt öðrum lögum, geta haft áhrif á verndargildi friðlýsta svæðisins skal taka mið af því við ákvörðun um veitingu leyfis.“
Í svarinu kom fram að vilyrði fyrir fjármagni næmu 18,7 milljónum króna. Fjármagnið verður notað til að setja upp hreinlætisaðstöðu á fyrirhuguðu tjaldsvæði og til að brúa tvær hættulegar ár innan verndarsvæðisins, Meyjará og Húsá.
Í frétt bb.is segir, að fulltrúi Árneshrepps í starfshópi um friðlýsinguna hefði neitað að skrifa undir friðlýsinguna.