Mentólbragð verður bannað á Íslandi

Mentólsígarettur verða brátt bannaðar.
Mentólsígarettur verða brátt bannaðar. mbl.is/Golli

Lagt er til að bann verði lagt við sölu sígaretta með mentólbragði hér á landi í frumvarpi sem leggja á fyrir Alþingi í mars á nýju ári.

Viðar Jensson, verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá embætti landlæknis, segir að með því sé verið að innleiða Evróputilskipun sem löngutímabært sé að innleiða.

Greint var frá málinu fyrst í Fréttablaðinu í dag.

Markmiðið með banninu er að gera tóbak og sígarettur minna fýsilegar í augum unglinga, sem gjarnan eru ginnkeyptari fyrir bragðbættum tóbaksvörum.

„Í inngangi þessarar löggjafar segir að tóbak eigi að líta út og bragðast eins og tóbak en ekki vera í dulargervi einhvers annars,“ segir Viðar við mbl.is.

Viðar Jensson, verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá embætti landlæknis.
Viðar Jensson, verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá embætti landlæknis. Ljósmynd/Landlæknir

Ný viðvörunarmerki á hverju ári

Gildistaka tilskipunarinnar sem um ræðir meðal EFTA-ríkja hefur tafist vegna málaferla í Noregi og Liechtenstein en nú hafa öll kurl komið til grafar og því hægt að innleiða tilskipunina.

Og það er fleira sem tilskipunin kveður á um eins og Viðar útskýrir.

„Það sem er sýnilegast er að við fáum nýjar viðvörunarmerkingar á tóbak. Við höfum beðið lengi eftir því vegna þess að viðvörunarmerkingar hafa bara ákveðinn líftíma í virkni. Og það er kominn tími að breyta þessum viðvörunarmerkjum.“

Vonast er til þess að þessar nýju viðvörunarmerkingar, með nýjum myndum af útsviðnum lungum eða gulum tönnum, veki fólk til umhugsunar. Það er enda gefið að reykingafólk venjist gömlu myndunum og hætti að kippa sér upp við þær. Þá er einnig kveðið á um það í tilskipuninni að viðvörunarmerkingunum verði skipt út reglulega, til þess að tryggja að þær úreldist ekki.

Skilaboðum til reykingafólks verður breytt árlega samkvæmt Evróputilskipun.
Skilaboðum til reykingafólks verður breytt árlega samkvæmt Evróputilskipun. mbl.is/Odd

Hvað með nikótínpúðana?

Það sem útaf stendur þó í tóbaksvörnum eru nikótínpúðar sem notað hafa gríðarlegra vinsælda síðustu ár, einna helst hjá ungu fólki.

Púðarnir fást í ýmsum bragðtegundum, með mismunandi styrk og þá má auglýsa gera sýnilega á sölustöðum.

Frumvarp um að leggja nikótínpúða að jöfnu við rafsígarettur hlaut ekki brautargengi á Alþingi á síðasta kjörtímabili, en Viðar segir að það standi til að leggja það fram aftur í febrúar.

 „Það var lagt fram fumvarp, sem miðaði að því að fella nikótínpúða og aðrar nikótínvörur inn í lög um rafrettur og ég veit að það stendur til að leggja það fram að nýju núna eftir áramót,“ segir Viðar.

Nikótínpúðar hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár.
Nikótínpúðar hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvað myndi það þýða ef púðarnir yrðu lagðir að jöfnu við rafretturnar?

„Það sem er mjög mikilvægt er að banna auglýsingar, banna sýnileika á almennum sölustöðum, en leyft yrði að sýna púðana innandyra í sérverslunum. Svo er mikilvægt að þessar vörur fái sambærilega löggjöf um innihaldslýsingar og eftirlit með vörunum, um sölufyrirkomulag, aldurstakmörk og fleira.“

Þannig við munum ekki sjá bönn við einstaka bragðtegundum eða styrkleika púðanna von bráðar?

„Það er ekki undir núna varðandi bragðtegundir en styrkleika þeirra, já.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka