Maðurinn sem var skotinn af lögreglu á Egilsstöðum í ágúst og var ákærður fyrir að hafa skotið af byssu sinni nokkrum sinnum, bæði inni í húsi fyrrverandi manns sambýliskonu sinnar og víðar, játaði brot sín að hluta en neitaði meðal annars sök um tilraun til manndráps. Þetta kom fram við þingfestingu málsins á þriðjudaginn í Héraðsdómi Austurlands.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari staðfestir við mbl.is að verjandi mannsins hafi jafnframt óskað eftir yfirmati á sakhæfi hans og hafi tveir yfirmatsmenn verið dómkvaddir til að framkvæma matið.
Kolbrún segir jafnframt að stefnt sé á að aðalmeðferð málsins fari fram í lok febrúar.
Líkt og mbl.is hefur greint frá er maðurinn ákærður fyrir tilraun til manndráps, húsbrot, eignarspjöll og vopnalagabrot, hótun, brot gegn barnaverndarlögum, brot gegn valdstjórn og hættubrot. Fram kemur í ákæru málsins að hann hafi að kvöldi 26. ágúst ruðst heimildarlaust inn í íbúðarhúsið á Dalseli, undir áhrifum áfengis og vopnaður hlaðinni haglabyssu af tegundinni Beretta A400Lite og hlaðinni 22 kalíbera skammbyssu, með þeim ásetningi að bana húsráðanda.
Var húsráðandi ekki heima en maðurinn skaut þremur skotum úr haglabyssunni innandyra og tveimur úr skammbyssunni. Þá skaut hann einnig tveimur skotum í hlið bifreiðar og framan á annan bíl, bæði með haglabyssunni og skammbyssunni.
Í ákærunni kemur jafnframt fram að maðurinn hafi hótað tveimur drengjum sem voru í húsinu sem hann réðst inn í, fjórtán og tólf ára, með hlaðinni haglabyssu þar sem þeir sátu í sófa. Drengjunum tókst að flýja út um dyr sem lágu út í garð og inn í nærliggjandi skóg.
Þegar lögreglu bar að skaut maðurinn jafnframt skoti að lögreglu með haglabyssunni.