Ferðaþjónustan mun taka mjög mikið pláss

Lilja Dögg Alfreðsdóttir tók við ferðamálum af Þórdísi Kolbrúnu R. …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir tók við ferðamálum af Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verið er að óska eftir viðbótargreiningu á stöðu ferðaþjónustunnar í ljósi Covid-19 heimsfaraldursins en viðspyrna og endurreisn hagkerfisins er að hluta háð gengi þessarar atvinnugreinar, að sögn Lilju Daggar Alfreðsdóttur, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, gagnrýndi á dögunum nýtt fjárlagafrumvarp sem kynnt var í síðustu viku. Þótti henni skjóta skökku við að á sama tíma og gert væri ráð fyrir að 1,4 milljón ferðamanna kæmu til landsins á næsta ári væru útgjöld ríkisins til ferðaþjónustu væru skert um hálfan milljarð.  

Viðspyrnan háð ferðaþjónustunni

„Ég er í góðri samvinnu við ferðaþjónustuna og það er alveg ljóst að þetta er erfitt fyrir hana og við tökum tillit til þess og heyrum í þeim hljóðið,“ segir Lilja innt eftir viðbrögðum við þessari gagnrýni.

Í samtali við mbl.is á mánudag kvaðst Bjarnheiður einnig búast við því að ferðaþjónustan muni taka hvað mest pláss í nýja ráðuneytinu í samræmi við vægi hennar innan efnahagskerfisins. Spurð hvort hún geti tekið undir þetta, segir Lilja að hún geri ráð fyrir að ferðaþjónustan muni taka mjög mikið pláss „enda er það þannig að viðspyrnan og endurreisnin er líka háð því hvernig ferðaþjónustunni gengur.“

„Ferðaþjónustan skapar miklar gjaldeyristekjur. Við sjáum það núna að utanríkisviðskipti eru jákvæð, meðal annars vegna þess að ferðaþjónustan er búin að taka vel við sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert