Frumvarp Ingu Sælands, formanni Flokks fólksins, um bann við blóðmerahaldi verður flutt á þingfundi í dag, að því er fram kemur á dagskrá þingfunda á vef Alþingis.
Eins og nýlega hefur verið vakin athygli á er blóðtaka úr fylfullum merum stunduð á Íslandi en alls eru 119 bændur með 5.383 blóðmerar. Er blóðtakan stunduð í því skyni að vinna úr blóðinu hormónið PMSG sem er notað til framleiðslu á frjósemislyfi sem hingað til hefur aðallega verið fyrir svínarækt.
Í frumvarpi Ingu segir að blóðmerarhald stórskaði ímynd Íslands enda hefur þessi starfsemi verið fordæmd um allan heim. Ljóst er að gildandi réttur nái ekki að vernda fylfullar merar gegn ofbeldi og þeirri illu meðferð sem felst í blóðmerahaldi og því verði löggjafinn að grípa til aðgerða strax og bannað það með öllu.
Í frumvarpinu kemur fram að blóðmerar séu látnar ganga með folöld eins oft og mögulegt er til að hámarka afköst hverrar merar, þar til hormónið finnst ekki lengur í blóði þeirra. „Þegar svo er komið er merunum slátrað. Folöldunum er að jafnaði slátrað.“
Segir þar einnig að fylfullar merar sæti mismiklu og misgrófu ofbeldi við blóðtöku þegar verið er að ná úr þeim hormóninu. Var þetta meðal annars opinberað í heimildarmyndinni Ísland - land 5.000 blóðmera sem hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum upp á síðkastið.
Þá hefur Evrópuþingið skorað á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og aðildarríki að hætta innflutningi og framleiðslu á PMSG og hefur áskoruninni einnig verið beint til Íslands sem aðildarríki EES-samningsins.