Framkvæmdir við Fossvogsbrú hefjist eftir ár

Framkvæmdir við nýja Fossvogsbrú ættu að hefjast í byrjun árs 2023, eða eftir rúmlega eitt ár, samkvæmt áætlunum Vegagerðarinnar. Vinningstillaga brúarinnar var kynnt í morgun, en verkefnið Aldan sem Efla verkfræðistofa, í samstarfi við BEAM Architects, stendur á bak við, hlaut flest stig dómnefndarinnar.

Tillagan sem bar nafnið Alda varð hlutskörpust í hönnunarkeppninni um …
Tillagan sem bar nafnið Alda varð hlutskörpust í hönnunarkeppninni um brú yfir Fossvog. Teikning/Efla og BEAM

Bryndís Friðriksdóttir, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is eftir að vinningstillagan var kynnt að nú taki við hönnunarferli sem Vegagerðin og verkefnastofa borgarlínu muni vinna.

Segir hún að Vegagerðin gefi sér ár í að hanna brúna og setja fram hönnunar- og útboðsgögn. Þannig sé horft til þess að farið verði í útboð seint á næsta ári og að framkvæmdir myndu svo hefjast beint í framhaldinu, eða í byrjun árs 2023.

Tillagan sem bar nafnið Alda varð hlutskörpust í hönnunarkeppninni. Gert …
Tillagan sem bar nafnið Alda varð hlutskörpust í hönnunarkeppninni. Gert er ráð fyrir umferð gangandi og hjólandi og borgarlínu í miðjunni. Teikning/Efla og BEAM

Spurð út í tímaramma á framkvæmdinni sjálfri, þ.e. hvenær hægt væri að opna fyrir umferð yfir brúna, segir Bryndís að enn sé ekki búið að setja niður fastan tímaramma. Meðal annars muni Vegagerðin núna fara yfir vinningstillöguna, en þar átti að koma fram áætlaður framkvæmdatími og kostnaður.

„En við vonum að brúin geti verið klár árið 2023 eða í byrjun 2024,“ segir Bryndís. Hún ítrekar þó að það sé sett fram með fyrirvara.

Vinningstillagan að brú yfir Fossvog. Hér er hún sett fram …
Vinningstillagan að brú yfir Fossvog. Hér er hún sett fram að næturlagi. Teikning/Efla og BEAM

Nú þegar vinningstillagan liggur fyrir er ekki úr vegi að spyrja Bryndísi hvernig henni lítist á tillöguna.

„Mér líst vel á þetta og leist vel á allar þrjár tillögurnar,“ segir hún og bætir við: „Þetta slær mig sem áhugavert mannvirki fyrir virka samgöngumáta og verður áhugavert kennileiti fyrir fólk á ferð í voginum.“

Horft inn Fossvoginn og yfir vinningstillöguna að nýrri Fossvogsbrú.
Horft inn Fossvoginn og yfir vinningstillöguna að nýrri Fossvogsbrú. Mynd/Efla og BEAM

Hægt er að sjá kynningu á brúnni hér að neðan bæði í myndskeiðinu og með nánari upplýsingum í pdf-skjalinu.

Fossvogsbrúin að kvöldi samkvæmt vinningstillögu Öldu.
Fossvogsbrúin að kvöldi samkvæmt vinningstillögu Öldu. Mynd/Efla og BEAM
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert