Heitar umræður um skipulag í Réttarholtsskóla

Gísli Kr. Björnsson, formaður Íbúasamtaka Fossvogs- og Bústaðahverfis, Eyþór Arnalds …
Gísli Kr. Björnsson, formaður Íbúasamtaka Fossvogs- og Bústaðahverfis, Eyþór Arnalds Laxdal, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. Eggert Jóhannesson

Matsalur Réttarholtsskóla var þéttsetinn í kvöld þegar fundur Íbúasamtaka Bústaða- og Fossvogshverfis fór fram. Íbúar og borgarfulltrúar tókust á um þéttingu og hraðalækkun við Bústaðaveginn en tillögur borgarinnar þess efnis hafa vakið miklar og heitar umræður innan hverfisins. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, var á meðal þeirra sem sóttu fundinn og lagði hún til að borgarstjóri myndi falla frá tillögunum þegar í stað.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Eyþór Arnalds Laxdal, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, fluttu ávarp og sátu fyrir svörum á fundinum. Salnum var skipt í tvö sóttvarnahólf og rúmaði hann 100 grímuklædda gesti.

Ný íbúasamtök stóðu fyrir fundi

Íbúasamtökin sem stóðu fyrir fundinum voru nýverið endurvakin en Gísli Kr. Björnsson fer með formennsku samtakanna. Gísli setti fundinn og vísaði til líflegra umræðna í umræðuhópi hverfisins á Facebook.

Fundurinn hófst á ávarpi borgarstjóra þar sem hann hrósaði íbúum fyrir endurvakningu samtakanna. Hann sagði það „ómetanlegt að hafa skipulagðan hóp íbúa til samtals og samráðs“.

Dagur kynnti hverfaskipulagið og fór yfir það samráð sem hafði átt sér stað. Hann sagði að samráðið hafi hafist á árunum 2015-2017. Sagði hann að borgin vildi vinna gegnsætt svo það mætti sjá afurðir hvers hluta samráðsins á skipulagsvefnum. Dagur sagði að þetta væru vinnutillögur og undanfari formlegrar tillögu að hverfaskipulagi.

Kom fram í máli hans að síðar verði unnin formleg tillaga sem færi þá í annað kynningaferli og benti Dagur á að oft væri fallið frá tillögum eftir samráð.

Dagur sagði tillögurnar til þess fallnar að lækka aksturshraða sem hefði lengi verið kallað eftir í íbúasamráði. Þá væri byggð við veginn til þess fallin að lækka hávaða í grennd við veginn og lækka umferðarhraðann sömuleiðis.

Meðal gesta var Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála-, viðskipta- og menningarmála …
Meðal gesta var Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála-, viðskipta- og menningarmála og íbúi í hverfinu. Eggert Jóhannesson

Bústaðahverfið hlýlegt gróðurhverfi

Í ávarpi sínu sagði Eyþór nafn Bústaðahverfisins vísa til bústaða fólksins sem byggi þar og sagði hann hverfið hlýlegt gróðurhverfi. Hann líkti Bústaðaveginum við slagæð í gegnum hverfið og sagði einkenni hverfisins vera Fossvogsdalinn fyrir neðan með Bústaðaveginn í miðjunni.

„Þetta er vel skipulagt hverfi,“ sagði Eyþór sem sagði það óþarft að laga það sem ekki væri bilað.

Eyþór segist hafa viljað sjá annan valkost fyrir hinn breiða Bústaðaveg sem yrði þá „manneskjuleg breiðgata“.

Vill jafnari umferð í Reykjavík

Hann sagði veginn ekki verða vistvænni með tilkomu blokka og vísaði þá til rannsóknar um hvaða áhrif það hefði að þrengja götur. Sagði Eyþór að bílarnir myndu ekki hverfa heldur leita annað.

Eyþór vakti síðan athygli á umferð í Reykjavík sem hann líkti við start-stopp. Hann sagði hana þurfa að vera jafnari þar sem fólk yrði pirrað. Það þyrfti að fækka ljósastýrðum gatnamótum sem hann sagði umferðaröryggismál.

Borgarfulltrúarnir sátu fyrir svörum eftir ávörpin.
Borgarfulltrúarnir sátu fyrir svörum eftir ávörpin. Eggert Jóhannesson

Flestir íbúar áhyggjufullur

Því næst tóku við spurningar úr salnum þar sem íbúar skiptust á skoðunum. Flestir gestir sem tóku til máls settu spurningamerki við tillögurnar og töldu þrenginguna of mikla.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra og íbúi í hverfinu, tók þá til máls og byrjaði á því að lýsa yfir algjörum stuðningi við fyrirætlanir um sundlaug í Fossvogi og spurði borgarstjórann hvenær hún kæmi. Hún sagði fyrirliggjandi hugmyndirnar sérstakar og lagði beinlínis til að borgarsjtórinn hætti við þær hér og uppskar mikið lófatkak meðal gesta.

Annar íbúi sagði litla eftirspurn eftir þjónustu innan hverfisins heldur ætti fremur að undirbúa  hverfið undir umferð rafbíla. Annar íbúi benti einn á að það væri verið að leggja því sem nemur heilu, fámennu, sveitarfélagi. 

Aðrir íbúar lýstu yfir áhyggjum að útsýni í hverfinu myndi skerðast við tilkomu þessara nýbygginga auk þess að bílastæði á svæðinu myndu verða undir í framkvæmdunum. 

Flestir íbúar sem tóku til máls voru sammála um að sundlaug í hverfið væri ágæt hugmynd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert