Miðað við núgildandi reglugerð og þá óbreyttu reglugerð sem tekur á miðnætti er leikhúsum óheimilt að selja veitingar í hléi. Þrátt fyrir það er ekkert sem bannar að afhenda vatnsglös algjörlega frítt í hléi.
Leikhússtjórum stóru leikhúsanna tveggja finnst þetta skjóta skökku við og vonast til þess að þetta ákvæði verði fellt úr gildi þegar ný reglugerð rennur sitt skeið eftir tvær vikur í mesta lagi.
Það þykir mörgum vafalaust skiljanlegt, þar sem lítill munur er á því að afgreiða vatnsglös fríkeypis eða Síríuslengju og kók í gleri og taka fyrir það gjald.
„Þrátt fyrir að við höfum sýnt fullan skilning á því að grípa hefur þurft til ýmissa aðgerða síðastliðna tuttugu mánuði, þá höfum við bent á það að undanförnu að menningarhúsin og leikhúsin eru sennilega öruggasti staðurinn til að vera á, það hefur ekki orðið eitt einasta smit meðal áhorfenda í öllum þessum húsum,“ segir Magnús Geir Þórðarson, Þjóðleikhússtjóri, í samtali við mbl.is.
„Og í dag er það þannig að fólk þarf að koma með hraðpróf, en það þarf samt að sitja með grímu og má ekki kaupa sér Opal-pakka í hléi eða gosflösku. Þar fyrir utan sitja allir í númeruðum sætum sem auðveldar smitrakningu ef á þarf að halda.“
Hann ítrekar að Þjóðleikhúsið og menningarstofnanirnar allar hafi unnið í nánu samstarfi við sóttvarnayfirvöld í baráttunni við faraldurinn.
Miðasala í leikhúsum var nokkuð góð í september og október en þegar tilkynnt var að framvísa þyrfti hraðprófi við komuna þangað hefur miðasala dregist snarpt saman.
Í ljósi þess hve aðstæður eru góðar í leikhúsum til þess að viðhafa fullnægjandi sóttvarnir, segir Þjóðleikhússtjóri að hann óski þess að sóttvarnayfirvöld felli á brott ýmsar ráðstafanir þar.
Í því sambandi segist hann heldur kjósa að fólk framvísi bólusetningavottorði við komuna í leikhúsið frekar en neikvæðu hraðprófi. Þá vill hann að grímuskylda verði dregin til baka á meðan sýningum stendur og loks að heimilt verði að selja veitingar í hléi.
„Fyrst og fremst snýst þetta bara um gestina okkar og upplifun þeirra. Það er kannski erfitt að sitja á leiksýningu með grímu en alveg hægt að komast í gegnum það. En það er leiðinlegt, sérstaklega á lengri sýningum, að geta ekki boðið gestum að kaupa sér hressingu í hléi,“ segir Magnús.
Undir þessi orð tekur Brynhildur Guðjónsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, en áréttar þó að leikhúsið standi þétt við bakið á sóttvarnayfirvöldum þegar kemur að baráttunni við faraldurinn.
„Við erum að nálgast núna tuttugu mánuði í þessum faraldri og við sýnum fullan skilning á því sem verið er að gera og ég hef fulla trú á því að þetta komi með næstu reglugerð.
Fólk verður að geta staðið upp og teygt úr sér í hléi og það er auðvitað hluti af upplifun gesta að geta fengið sér kaffi og sörur í hléi eða fyrir börn að fá gosflösku og sælgæti.
Hins vegar getum við ekki meinað fólki að fá vatnsglas og þannig útfærum við það, en við höfum fulla trú á því að þetta komi bara með næstu reglugerð.“