Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 75 þúsund í nýliðnum nóvembermánuði samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia. Segir Ferðamálastofna, að horfa þurfi allt til ársins 2015 til að sjá álíka fjölda brottfara erlendra farþega í nóvembermánuði.
Frá áramótum hafa um 623 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi sem er 32,6% fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra en þá voru brottfarir erlendra farþega um 470 þúsund. Borið saman við 2019 er fækkunin 66%.
Bandaríkjamenn og Bretar voru fjölmennastir í hópi ferðamanna í nóvember, Þjóðverjar voru í þriðja sæti, Frakkar í fjórða sæti og Pólverjar í því fimmta.
Það sem af er árinu eru brottfarir erlendra farþega það sem af er ári 33% fleiri en í fyrra. Þegar horft er til brottfara síðasta hálfa árið má hins vegar sjá að fjöldinn hefur meira en fjórfaldast milli ára en brottfarir mældust um 591 þúsund talsins á tímabilinu júní til nóvember 2021 en um 135 þúsund árið 2020. Í samanburði við árið 2019 þá voru brottfarir síðasta hálfa árið um helmingur af því sem þær mældust á sama tímabili árið 2019.
Brottfarir Íslendinga í nóvember voru tæplega 33 þúsund talsins en í sama mánuði í fyrra voru þær rétt innan við tvö þúsund. Brottfarir Íslendinga frá áramótum eru um 186 þúsund eða um 47% fleiri en á sama tímabili í fyrra.