Nýtti ekki bók Bergsveins við skrifin

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Mér koma mjög á óvart ásakanir Bergsveins Birgissonar um ritstuld sem hafa nú komið fram. Því er til að svara að ég nýtti ekki bók Bergsveins við skrif mín,“ segir Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri í stuttri yfirlýsingu sem hann sendi frá sér vegna ásakana Bergsveins Birgissonar, rithöfundar og fræðimanns um ritstuld.

Vísar ásökunum Bergsveins alfarið á bug

Nýverið gaf Ásgeir Jónsson út bókina Eyjan hans Ingólfs þar sem hann fjallar um landnám Íslands en rit­höf­und­ur­inn Berg­sveinn Birg­is­son sak­ar Ásgeir um að hafa byggt bókina á verki sínu, Leit­in að svarta vík­ingn­um, án þess að geta heimilda.

Ásgeir vísar þessum ásökunum á bug og segir marga sagnfræðinga hafa lýst upphafi landnáms sem veiðimannasamfélagi og að það sé að hans viti orðið að viðurkenndri söguskoðun.

„Um þetta er fjallað í upphafi bókar minnar Eyjan hans Ingólfs og ég hef aldrei álitið að ég væri að leggja eitthvað nýtt í mörkum í því efni,“ segir hann í yfirlýsingunni.

Bókin sé annars hagsöguleg greining á landnáminu með áherslu á tengslin við Suðureyjar og stofnanauppbyggingu landsins fram að stofnun Alþingis, að sögn Ásgeirs.

„Aðaláherslan er á verslun og viðskipti og síðan stofnanabyggingu landsins í breiðu samhengi. Ég vísa þessum ásökunum Bergsveins því alfarið á bug“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert