„Mér koma mjög á óvart ásakanir Bergsveins Birgissonar um ritstuld sem hafa nú komið fram. Því er til að svara að ég nýtti ekki bók Bergsveins við skrif mín,“ segir Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri í stuttri yfirlýsingu sem hann sendi frá sér vegna ásakana Bergsveins Birgissonar, rithöfundar og fræðimanns um ritstuld.
Nýverið gaf Ásgeir Jónsson út bókina Eyjan hans Ingólfs þar sem hann fjallar um landnám Íslands en rithöfundurinn Bergsveinn Birgisson sakar Ásgeir um að hafa byggt bókina á verki sínu, Leitin að svarta víkingnum, án þess að geta heimilda.
Ásgeir vísar þessum ásökunum á bug og segir marga sagnfræðinga hafa lýst upphafi landnáms sem veiðimannasamfélagi og að það sé að hans viti orðið að viðurkenndri söguskoðun.
„Um þetta er fjallað í upphafi bókar minnar Eyjan hans Ingólfs og ég hef aldrei álitið að ég væri að leggja eitthvað nýtt í mörkum í því efni,“ segir hann í yfirlýsingunni.
Bókin sé annars hagsöguleg greining á landnáminu með áherslu á tengslin við Suðureyjar og stofnanauppbyggingu landsins fram að stofnun Alþingis, að sögn Ásgeirs.
„Aðaláherslan er á verslun og viðskipti og síðan stofnanabyggingu landsins í breiðu samhengi. Ég vísa þessum ásökunum Bergsveins því alfarið á bug“.