Líftæknifyrirtækið Ísteka hefur tekið ákvörðun um að rifta samningum við bændur vegna ólíðandi meðferðar hrossa.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Nýlega birtist myndskeið á vegum svissneskra dýraverndarsamtaka um blóðtöku mera á Íslandi, þar sem sjá mátti slæma meðferð hrossa af hálfu samstarfsbænda Ísteka.
„Þessi meðferð er augljóslega brot á velferðarsamningum fyrirtækisins og viðkomandi bænda. Samningum við þá hefur því verið rift,“ segir í tilkynningunni.
Á þessu ári hefur Ísteka verið í samstarfi við 119 bændur um blóðgjafir hryssa til lyfjaframleiðslu en gerðir voru viðskiptasamningar og sérstakir velferðarsamningar við þá alla.
Tekið er þá fram að blóðgjöf til lyfjaframleiðslu er eina búgreinin á Íslandi þar sem slíkir samningar eru regla og eru bændur almennt taldir vinna í samræmi við þá.
Nú þegar eru allar blóðgjafir framkvæmdar af dýralæknum og á starfsemin að vera undir eftirliti bæði Matvælastofnunar og Ísteka þar sem sérstakur dýravelferðarfulltrúi starfar.
„En þrátt fyrir að regluverk um blóðgjafir sé strangt og eftirlit mjög mikið er ljóst að óviðeigandi frávik geta komið upp. Slíkt er ekki liðið af hálfu Ísteka og samningum við bændur er rift ef ekki er staðið við þá.“
Að lokum kemur fram að Ísteka hefur ákveðið að leggja af stað í umfangsmiklar umbætur á eftirliti í samstarfi við sérfræðinga á sviði búfjárhalds og dýravelferðar þar sem að lagt verður áherslu á aukna fræðslu og þjálfun fyrir samstarfsbændur, fjölgun velferðareftirlitsmanna og auk þess verður myndavélaeftirlit með öllum blóðgjöfum.