Rithöfundurinn Bergsveinn Birgisson sakar Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóra um að hafa byggt á verki sínu, Leitin að svarta víkingnum, í nýútkominni bók sinni Eyjan hans Ingólfs, án þess að Bergsveins sé getið í nokkru.
Bergsveinn setur ásakanir sínar fram í aðsendri grein á Vísi.is, en þar segir hann meðal annars að þótt að tilgátur hans úr Leitinni að svarta víkingnum, sem og norskri frumgerð þeirrar bókar, „endurómi víða í bók Ásgeirs, eru þau hvergi nefnd á nafn, hvorki norsk né íslensk gerð bókar, og það þótt höfundur geti ýmiskonar rita í neðanmálsgreinum.“
Þá segir Bergsveinn að Ásgeir geti sín ekki hvorki neðanmáls né í meginmáli, þó það hefði getað talist Ásgeiri sem höfundi til tekna. „Hér er því um ritstuld að ræða, og það svo umfangsmikinn að mér er til efs að viðlíka dæmi séu til í sögu íslenskrar bókaútgáfu.“
Bergsveinn segir svo að nánar tiltekið sé fremur um hugmyndastuld að ræða, og rekur hann þar nokkur dæmi úr bók Ásgeirs, sem Bergsveinn segir að hafi fyrst áður verið reifaðar í Leitinni að svarta víkingnum og hvergi annars staðar.
Nefnir hann þar sem dæmi hugmynd sína um að hér hafi skapast „efnahagsmódel veiðimenningar sem ég tel hafa einkennt frumlandnám Íslands, sem síðan hafi þróast út í meiri áherslu á landbúnað þegar veiði þvarr,“ en Bergsveinn segir þessa tilgátu enduróma „gegnum alla bók Ásgeirs, en ekki annað að sjá en hann hafi komist að þessari niðurstöðu af eigin rammleik.“
„Að saka einhvern um ritstuld er alvarlegt mál. Það gerir enginn að gamni sínu. En ritstuldur sá sem ég tel Ásgeir Jónsson vera sekan um í þessu tilfelli er að sama skapi grafalvarlegt mál. Það gerir málið enn alvarlegra að seðlabankastjóri Íslands sé uppvís að þjófnaði á hugverkum annarra,“ segir Bergsveinn í niðurlagi greinar sinnar.
Segir hann jafnframt hafa lagt málið fyrir Siðanefnd Háskóla Íslands og Nefndar um vandaða starfshætti í vísindum.