Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, segir flokkinn hafa lagt fram þrjár tillögur til að lækka skuldir í tengslum við fjárhagsáætlun borgarinnar. Þeim hafi öllum verið hafnað og í stað þess ætli borgin að taka tvo milljarða í lán mánaðarlega.
Eyþór segir að fyrsta tillaga sjálfstæðismanna snúi að því að íbúar hjá Félagsbústöðum geti keypt íbúðir sem þeir nú leigi.
„Fólk sem hefur áhuga og getu hafi þannig kost á því að kaupa heimili sitt. Við gerðum ráð fyrir því að selja 100 íbúðir á ári næstu þrjú árin,“ segir Eyþór við mbl.is.
„91% leigjenda vill eignast íbúðir svo þetta er klárlega vilji fólks,“ bætir hann við.
Aðra tillögu segir Eyþór snúa að því að selja fyrirtækið Ljósleiðarinn ehf. (áður Gagnaveita Reykjavíkur). Hann segir það einfaldlega fyrirtæki sem eigi heima á samkeppnismarkaði.
„Í þriðja lagi er það Malbikunarstöðin Höfði sem stefnt er á að flytja úr Reykjavík en er í 100% eigu borgarinnar. Það er algjör tímaskekkja að Reykjavíkurborg sé að reka malbikunarstöð, hvað þá í Hafnarfirði,“ segir Eyþór.
Hann segir að í stað þess að fallast á þessar tillögur hafi meirihlutinn ákveðið að taka tvo milljarða í lán í hverjum mánuði. Áfram séu vandræði með að manna stöður á leikskólum, biðlistar þar séu löngu þekktir og Eyþór segir alla vita hvernig viðhald skólahúsnæðis í borginni hafi verið.