Bætist við í Hafnarfjörðinn

Frá Hafnarfjarðarhöfn.
Frá Hafnarfjarðarhöfn. Ljósmynd/Aðsend

Áætlað er að uppbygging nýrra hverfa og þétting eldri byggða muni leiða til 1.500 til 2.000 manna árlegri fjölgun Hafnfirðinga að meðaltali næstu fjögur árin. Lögð er áhersla á að styrkja eldri byggð bæjarins og efla miðbæinn.

Þetta segir í tilkynningu frá Hafnafjarðarbæ en fjárhagsáætlun bæjarins var samþykkt í gær. Áætlunin nær til næsta árs auk þriggja ára áætlunar fyrir árin 2023-2025.

Stefnt er að því að rekstrarafgangur A- og B-hluta sveitafélagsins muni nema 842 milljónum króna á árinu 2022, þar af verði rekstrarniðurstaða A-hluta 106 milljónir króna. Skuldaviðmið er áætlað um 97,7 í árslok 2022, „Til samanburðar var hlutfallið 112% í árslok 2019, áður en Covid-19 skall á,“ segir í tilkynningunni. Þá er gert ráð fyrir að gjaldskrá fyrir árið 2022 haldist óbreytt eða hækki um 2,5%, innan væntra verðlagshækkana.

Útsvarsprósenta mun haldast óbreytt, um 14,48% og fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði lækkaðir um tæplega 5%, til að koma til móts við hækkun fasteignamats.

„Ýta undir blómlegt bæjarlíf“ 

Af helstu framkvæmdum sem munu eiga sér stað má nefna gatnagerð í nýjum hverfum bæjarins auk frágangs á öðrum nýbyggingarsvæðum, efling hjólreiðaleiða, fegrun Hellisgerðis fyrir 100 ára afmælisárið 2022, LED-væðingu gatnalýsingar og undirbúningur að nýjum leik- og grunnskóla í Hamranesi. Þá mun endurnýjun grasvalla FH og Hauka ljúka á árinu.

„Með þeim hverfum sem eru að verða til í Hafnarfirði og hóflegri þéttingu á eldri svæðum er áætlað að árleg fjölgun Hafnfirðinga verði um 1.500–2.000 manns að meðaltali næstu fjögur árin.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jafnframt leggjum við  áherslu á að vernda einstakan bæjarbrag, styrkja eldri byggð og efla miðbæinn. Nýjar skipulagshugmyndir við Strandgötu, fyrirhuguð bygging Tækniskólans og rammaskipulag inn að Flensborgarhöfn og út á Óseyrarsvæðið munu ýta undir blómlegt bæjarlíf og fjölbreytta þjónustu,“ er haft eftir Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnafjarðar, í tilkynningunni.

Fjárhagsáætlanir og greinargerðir bæjarins má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert