Hæstiréttur staðfestir kyrrsetningu vegna brunans á Bræðraborgarstíg

Þrír íbúar létust þegar fjölbýlishúsið að Bræðraborgarstíg 1 í Reykjavík …
Þrír íbúar létust þegar fjölbýlishúsið að Bræðraborgarstíg 1 í Reykjavík brann 25. júní 2020. Húsið var þriggja hæða forskalað timburhús og mun hafa verið byggt fyrir liðlega einni öld. Þann 17. september 2020 var íbúi í húsinu ákærður fyrir að hafa verið valdur að brunanum, manndrápi og tilraun til manndráps. Héraðsdómur sakfelldi manninn fyrir brotin 3. júní 2021 en sýknaði hann af refsikröfu vegna ósakhæfis. Aftur á móti var honum gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Landsréttar og lagt fyrir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að gera kyrrsetningu hjá HD verki ehf. til fullnustu krafna einstaklinga sem töldu sig eiga skaðabótakröfur á hendur því vegna tjóns sem þeir urðu fyrir þegar fjölbýlishúsið að Bræðraborgarstíg 1 í Reykjavík brann sumarið 2020.

Hæstiréttur taldi að draga myndi mjög úr líkum þess að fullnusta krafna fengist eða að hún yrði verulega örðugri ef kyrrsetning færi ekki fram. Alls dæmdu fimm dómarar í málinu.

Það var 25. júní 2020 sem fjölbýlishúsið að Bræðraborgarstíg 1 í Reykjavík brann. HD verk var eigandi fasteignarinnar en varnaraðilar voru annars vegar íbúar hússins sem voru í því þegar það brann og hins vegar nánustu aðstandendur þeirra þriggja íbúa þess sem létust í brunanum.

Fram kom í dómi Hæstaréttar, að meginstarfsemi HD verks hefði verið rekstur og útleiga fasteigna en félagið hefði á nokkurra mánaða tímabili látið frá sér að verulegu leyti þær fasteignir sem mynduðu tekjur í rekstri þess. Var því talið sennilegt að draga myndi mjög úr líkindum þess að fullnusta krafna varnaraðila fengist eða að hún yrði verulega örðugri ef kyrrsetning færi ekki fram.

Í dómi Hæstaréttar kom jafnframt fram að sýslumanni hefði borið að fara ekki í einu lagi með kyrrsetningarbeiðni varnaraðila heldur hefði hann að réttu lagi átt að gera sérstaka gerð fyrir kröfu hvers þeirra um sig.

Varnaraðilar telja sig eiga skaðabótakröfur á hendur HD verks vegna tjóns sem þau urðu fyrir í brunanum. Þennan málatilbúnað reisa þau á því að HD verk beri ábyrgð á að eignin hafi ekki fullnægt lögbundnum kröfum um brunavarnir.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að í kjölfar brunans að Bræðraborgarstíg 1 hafi að sínu leyti verið skiljanlegt að HD verk ráðstafaði eigninni í stað þess að ráðast sjálft í uppbyggingu á lóðinni. Er þá haft í huga að meginstarfsemi félagsins hafi verið rekstur og útleiga fasteigna eins og komi fram í ársreikningum þess. Einnig verði að gera ráð fyrir að hagræði hafi falist í að ráðstafa samhliða aðliggjandi eign að Bræðraborgarstíg 3, eins og gert hafi verið með  kaupsamningi 12. janúar 2021, þannig að framkvæmdir og starfsemi á svæðinu gæti tekið til beggja eignanna.

„Aftur á móti hefur sóknaraðili ekki gert viðhlítandi grein fyrir ástæðum þess að hann hefur í kjölfarið á nokkurra mánaða tímabili selt allar fasteignir sínar ef frá er talin eignin Kársnesbraut 96A og þrír eignarhlutar í fasteigninni að Eiðistorgi 13 til 15. Er þá til þess að líta að bókfært verð fasteigna sóknaraðila var samkvæmt ársreikningi 1.637.771.929 krónur í árslok 2020 en mat á andvirði þeirra eigna sem hann hefur ekki ráðstafað nemur nú 383.000.000 króna samkvæmt mati fasteignasala sem sóknaraðili hefur sjálfur aflað. Til samanburðar má nefna að fasteignamat á eignum sóknaraðila var í árslok 2020 samtals 1.260.990.000 krónur en samtals nemur fasteignamat þeirra eigna sem hann hefur ekki selt 271.550.000 krónum. Miðað við fasteignamat hefur sóknaraðili því selt ríflega 78% af eignasafni sínu,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Hæstiréttur bætir við, að að það verði að telja sennilegt að draga muni mjög úr líkindum þess að fullnusta krafna varnaraðila fáist eða að hún verði verulega örðugri ef kyrrsetning hjá sóknaraðila fari ekki fram. Var því úrskurður Landsréttar um kyrrsetningu staðfestur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert