Í heimsóknum Umboðsmanns Alþingis í nokkra grunnskóla nýverið komu ekki fram vísbendingar um að nemendur séu kerfisbundið látnir dvelja í svonefndum einveruherbergjum í svo langan tíma eða við þær aðstæður að jafnað verði til frelsissviptingar. Þetta kemur fram á vef Umboðsmanns Alþingis.
Umboðsmaður vekur hins vegar athygli ráðherra á álitaefnum sem heimsóknirnar leiddu í ljós og óskað er eftir því að ráðuneytið veiti upplýsingar um hvort það hyggist bregðast við þeim ábendingum sem fram koma. Frestur er veittur til 1. febrúar næstkomandi.
Forsaga málsins er sú að í haust óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum frá nokkrum sveitarfélögum og mennta- og menningarmálaráðuneytinu um aðskilnað barna frá samnemendum sínum og vistun þeirra í sérstökum rýmum grunnskóla. Upplýsingar frá öllum aðilum höfðu borist um miðjan nóvembermánuð.
Umboðsmaður hafði áður óskað eftir svipuðum upplýsingum á síðasta ári en þá var ekki talin þörf á frekari aðgerðum.
Kveikjan að athugun umboðsmanns nú var opinber umræða um að dæmi væru um að börn væru lokuð inni í ákveðnum skólum og þá gjarnan vísað til „gula herbergisins“. Vildi umboðsmaður fá upplýsingar um það hvort ábendingar, kvartanir eða kærur hefðu borist frá því málið var síðast skoðað. Hvort vart hefði verið við þessa framkvæmd og hvort almennt verklag væri skráð um hana.
„Þótt ekki hafi komið fram vísbendingar, í heimsóknum umboðsmanns í grunnskóla, að nemendur séu kerfisbundið sviptir frelsi sínu með notkun einveruherbergja vekur hann engu að síður athygli ráðherra á álitaefnum sem athugun hans á framkvæmd þessa úrræðis leiddi í ljós og hugsanlegri þörf á því að kannaðar verði leiðir til úrbóta. Einkum hvort gildandi reglur um heimildir og verklag viðvíkjandi slíkum inngripum gagnvart nemendum séu nægilega skýrar,“ segir á vef umboðsmanns.
„Jafnframt er vakin athygli á þeim vanda sem starfsmenn skólanna hafa lýst vegna nemenda með sérþarfir og alvarlegan hegðunarvanda og kallað eftir skýrari afstöðu ráðuneytisins til notkunar einveruherbergja í því sambandi. Í bréfinu áréttar umboðsmaður að engin afstaða sé tekin til einstakra mála sem kunni að hafa komið upp í skólakerfinu þar sem athugun embættisins hafi ekki beinst að þeim sérstaklega,“ segir þar einnig.
Í bréfi sem Umboðsmaður Alþingis sendi mennta- og barnamálaráðherra kemur fram að innilokun nemanda, sem jafnað yrði til frelsissviptingar, sé aðeins hægt að réttlæta með vísan til neyðarréttar eða nauðvarnar. „Frelsissvipting nemanda á slíkum grundvelli, ef um hana sé að ræða, geti aðeins varað í mjög skamman tíma eða þar til yfirvofandi hættu hafi verið afstýrt og beri þá jafnframt að gæta að skráningu atviks og samráði við foreldra. Frelsissvipting komi því ekki til álita þegar um sé að ræða einföld brot á skólareglum, svo sem truflandi hegðun nemanda, óhlýðni eða aðra óæskilega háttsemi, enda séu skólunum þá tæk önnur úrræði.“
Áður en umboðsmaður tekur ákvörðun um frekari meðferð málsins óskar hann eftir því að ráðuneytið veiti upplýsingar um hvort það hyggist bregðast við þeim ábendingum sem settar eru fram í bréfinu og þá með hvaða hætti