Framsóknarmenn komnir „heim“

Þingflokkur Framsóknar er kominn í græna herbergið á ný.
Þingflokkur Framsóknar er kominn í græna herbergið á ný. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í síðustu alþingiskosningum breyttust hlutföll á Alþingi og það hefur haft í för með sér flutning milli þingflokksherbergja. Vinstri-grænir hafa hreiðrað um sig í svonefndu gula herbergi í þinghúsinu og hafa eftirlátið framsóknarmönnum græna herbergið. Þetta munu vera hinir upprunalegu litir herbergjanna, en Alþingishúsið var reist á árunum 1880-1881.

Segja má að þingflokkur framsóknarmanna sé nú kominn „heim“. Framsóknarmenn höfðu græna herbergið til afnota allt frá árinu 1942 til 2009. Það þótti við hæfi enda er einkennislitur flokksins grænn.

Í kosningunum 2009 unnu Vinstri-grænir góðan sigur, fengu 14 þingmenn kjörna en Framsókn fékk níu þingmenn. Því urðu framsóknarmenn að gefa græna herbergið eftir til VG og flytja í það gula.

Sárt að missa gamla herbergið

„Það var auðvitað sárt að missa gamla herbergið en við stefnum að svo góðum sigri í næstu kosningum að við endurheimtum það,“ sagði Siv Friðleifsdóttir, þáverandi þingmaður framsóknarmanna, í blaðaviðtali 2009. Þetta gekk eftir í kosningunum 2013. Framsóknarflokkurinn vann stórsigur, þingmönnum fjölgaði úr níu í 19 og flokkurinn endurheimti græna herbergið. VG fékk aðeins sjö þingmenn kjörna. Í alþingiskosningunum í október 2016 fækkaði þingmönnum Framsóknar í átta en VG fékk 10 þingmenn kjörna. Því urðu framsóknarmenn að láta græna herbergið af hendi enn á ný. Í kosningunum í október 2017 fékk Framsókn aftur átta þingmenn en Vinstri-grænir 11 og héldu því græna herberginu.

En í kosningunum í haust urðu þau tíðindi að Framsókn bætti við sig fimm þingmönnum og fékk 13 kjörna. VG tapaði þremur og fékk átta menn kjörna. Það kallar á flutning milli herbergja, enn einu sinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka