Segir Mosfellsbæ ljúga í yfirlýsingu

Varmárskóli í Mosfellsbæ.
Varmárskóli í Mosfellsbæ. mbl.is/Eyþór Árnason

Móðir stúlkunnar sem nú stendur í málaferlum við Mosfellsbæ vegna óviðunandi námsaðstæðna og takmarkaðrar sjúkrakennslu, segir yfirlýsingu sem bærinn sendi út í dag ekki rétta. Hún telur athyglisvert að bærinn sem ekki hafi tímt að standa almennilega að sjúkrakennslunni finnist sæmandi að ráða dýrustu lögfræðistofu landsins til þess að verja það að veita ekki viðunandi sjúkrakennslu. Mosfellsbær segist standa við yfirlýsingu sína.

„Fyrirtaka málsins átti að fara fram í dag en henni var svo frestað að beiðni lögfræðings Mosfellsbæjar vegna þess að hún þurfti tíma til þess að fara yfir eitt a4 blað sem var sálfræðivottorð. Fyrirtakan frestast fram í janúar vegna þessa. Þetta þykir mér einkennilegt, kannski var lögfræðingurinn vant við látinn að semja yfirlýsingu vegna fréttar mbl.is.“ segir móðir stúlkunnar í samtali við mbl.is.

Í yfirlýsingu Mosfellsbæjar er tekið fram að foreldrarnir hafi fengið að velja sjálf rýmið sem dóttir þeirra myndi læra í. Skólastjórinn hafi svo gert athugasemd við valið þar sem rýmið væri ekki við hæfi. Móðir stúlkunnar segir þetta ekki rétt.

„Þetta er alrangt. Við vorum leidd að þessari kompu og upplýst um að þetta væri eina rýmið sem kæmi til greina. Þetta ætti einungis að vera í stuttan tíma, sem síðar reyndist rangt. Okkur var ekki tjáð að þetta væri skammarkrókurinn.“ En síðar kom í ljós að umrætt rými var nýtt sem einveruherbergi fyrir nemendur með alvarlegan hegðunarvanda.

Ekki í boði að skipta um skóla

Hún gerir einnig verulegar athugasemdir við það að dóttir hennar hafi ekki fengið að færa sig yfir í Lágafellsskóla, líkt og þau óskuðu eftir, sem og að ekki hafi verið haft samráð við foreldrana í málinu. Skólaskrifstofa Mosfellsbæjar hafi einfaldlega sagt að það stæði ekki til boða að skipta um skóla. Engar nánari útskýringar hafi verið gefnar fyrir þeirri afstöðu bæjarins.

Stúlkan hafi verið lögð í einelti í skólanum og hafi „verið logandi hrædd við að mæta í skólann.“ Þá hafi kennarar gert öðrum nemendum kunnugt að stúlkan kæmi aftur í skólann og það hafi hrætt stúlkuna verulega að hinir nemendurnir vissu af komu hennar.

Þá bendir hún einnig á að þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um gerð móttökuáætlunar hafi slík áætlun aldrei verið gerð. Samkvæmt lögum eigi að gera slíka áætlun fyrir börn með greiningar og þar eigi að tiltaka hvað nám þeirra eigi að innihalda. „Það var aldrei gerð slík áætlun, þrátt fyrir að við bæðum um það.“

Fáfræði eða illvilji

Hún segir „algjörlega ömurlegt“ að lesa yfirlýsingu bæjarins í málinu sem hún segir „algjöran hvítþvott“ til þess að afsaka það að veita ekki viðunandi sjúkrakennslu.

Í yfirlýsingunni segir að móðir stúlkunnar hafi farið með málið í fjölmiðla sem móðir stúlkunnar segir rétt. Mbl.is greindi frá málinu fyrir tveimur árum síðan en þá var hvorki búið að nafngreina skólann né bæjarfélagið.

„Þá hafði bæjarfélagið nægan tíma til þess að laga þetta sín megin og bjarga skólaárinu hjá barninu. Sem það valdi að gera ekki.“

Spurð út í viðbrögð skólayfirvalda í Mosfellsbæ og raunar út í viðbrögð bæjarins vegna málsins segir hún: „Annað hvort er þetta algjör heimska og fáfræði af hálfu skólans eða hreinn og beinn illvilji. Ég hreinlega hallast að því síðarnefnda. Þau komu virkilega illa fram við okkur foreldrana og dóttur mína. Ef ég hefði ekki barist fyrir því að hún fengi einhverja kennslu þá hefði hún ekki getað útskrifast í neinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert