Undanfarið hafa ýmsar rannsóknir beinst að því að skoða notkun mismunandi bóluefna gegn Covid-19, annars vegar milli fyrri skammts og síðari og hins vegar milli grunnbólusetningar og örvunarbólusetningar.
Gögn úr rannsóknum um bólusetningar með ólíkum bóluefnum sýna að samsetning veiruferju-bóluefna og mRNA bóluefna framkalli mótefni gegn Covid-19 í nægilegu magni.
Sömu rannsóknir sýna einnig að notkun á ólíkum bóluefnum örvar T-frumu svörun í meira mæli en ef sama bóluefni er notað, hvort sem er í grunn- eða örvunarbólusetningu, að því er segir í tilkynningu Lyfjastofnunar.
Bólusetning með ólíkum bóluefnum hefur ekki kallað fram miklar aukaverkanir.
Notkun á veiruferju-bóluefni í síðari skammt í bólusetningum eða notkun á tveim mismunandi mRNA bóluefnum hefur ekki verið rannsakað jafn mikið.
Notkun á mismunandi bóluefnum getur aukið sveigjanleika í bólusetningarherferðum, meðal annars til að lágmarka áhrif skorts á ákveðnu bóluefni.
Lyfjastofnun Evrópu (EMA) og Sóttvarnarstofnun Evrópu (ECDC) hvetja alla borgara á EES-svæðinu til að fara í grunnbólusetningu og fylgja ráðleggingum um örvunarbólusetningu.
Hvatningin er lögð fram í ljósi vaxandi fjölda Covid-19 smita auk hærri tíðni af sjúkrahúsinnlögnum.
„Bólusetningar koma í veg fyrir að milljónir borgara innan EES-svæðisins veikjast alvarlega eða deyja. Að auki sýna tölur að fjöldi sjúkrahúsinnlagna og dauðsfalla vegna COVID-19 er lægst í löndum sem hafa hæst hlutfall bólusettra," segir í tilkynningunni.