Íbúum Hafnarfjarðar gæti fjölgað um 1.500 til 2.000 að meðaltali á ári næstu fjögur árin ef áform um uppbyggingu ganga eftir. Með því gætu allt að 38 þúsund manns búið í bænum í árslok 2025.
Þetta kom fram í máli Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðar, á bæjarstjórnarfundi. Þróun íbúafjöldans, samkvæmt þessum forsendum, er hér sýnd á grafi en tæplega 29.800 manns bjuggu í Hafnarfirði í byrjun þessa mánaðar.
Meðal annars er fyrirhuguð uppbygging í Skarðshlíð og í nýju hverfi, Hamranesi, þar við hlið og á þéttingarreitum í bænum. Má þar nefna áform um mikla uppbyggingu við Hafnarfjarðarhöfn.
Að sögn Rósu gæti íbúum Hafnarfjarðar fjölgað um allt að fjórðung á tímabilinu.