Standi andspænis nánast óleysanlegum vanda

Starfsmenn skóla segja óvissu um hvaða heimildir þeir hafa þegar …
Starfsmenn skóla segja óvissu um hvaða heimildir þeir hafa þegar bregðast þarf við aðstæðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í þeim grunnskólum sem Umboðsmaður Alþingis heimsótti í athugun sinni á notkun einveruherbergja kom fram að skólarnir teldu sig standa andspænis nánast óleysanlegum vanda gagnvart nemendum með sérþarfir og hegðunarvanda. Er það í samræmi við það sem fram kom hjá fulltrúum kennara sem umboðsmaður ræddi við. Einveruherbergin væru notuð til að bregðast við óæskilegri og ofbeldisfullri hegðun nemenda. Þeim væri vísað þangað inn til að róa sig niður.

Þetta kemur fram í bréfi umboðsmanns til mennta- og barnamálaráðherra þar sem meðal annars er vakin athygli á þessum vanda sem skólarnir lýsa. Er þar til að mynda kallað eftir skýrari afstöðu ráðuneytisins til einveruherbergja. En í úrskurði ráðuneytisins frá því 19. september síðastliðinn var notkun slíkra herbergja ekki talin samrýmanleg ákvæðum laga um grunnskóla og óskað var eftir því að notkun þeirra yrði hætt án tafar. Þá hefur umboðsmaður fengið svipuð svör frá ráðuneytinu við athugun málsins. Umboðsmaður telur hins vegar skorta frekari upplýsingar frá ráðuneytinu um þetta mál.

Í bréfi umboðsmanns kemur fram aðilar innan skólanna kvarti ekki bara yfir því að fjármagn og mannafli sé ófullnægjandi til að sinna þörfum nemenda með sérþarfir og hegðunarvanda innan „skóla án aðgreiningar“ og þeim því í mörgum tilvikum sinnt af stuðningsfulltrúum, með takmarkaða menntun, í stað kennara.

Heldur sé einnig bent á að óvissa sé fyrir hendi um hvaða heimildir starfsmenn hafi til að bregðast við þeim aðstæðum sem geti komið upp og hvernig eigi að halda á málum nemenda með alvarlegan hegðunarvanda. Þá sé vísað til þess að skólum sé skylt að taka við þessum nemendum og veita þeim kennslu samkvæmt lögum.

Starfsmenn spyrja hvort kalla eigi til lögreglu

Í viðtölum umboðsmanns við starfsmenn skólanna kom fram að þessi óvissa valdi óöryggi meðal starfsmanna sem geti haft slæm áhrif á skólastarfið og hagsmuni nemenda almennt. Starfsmenn hafi meðal annars spurt sig að því hvort réttast væri að kalla til lögreglu þegar nauðsynlegt væri talið að bregðast þyrfti við alvarlegri hegðun nemanda í skólastofu. Vísuðu þeir þá til þess vanda að við slíkar aðstæður bæru kennarar skyldur gagnvart velferð og öryggi annarra nemenda.

Einnig var bent á að í menntun kennara fælist að óverulegu leyti undirbúningur fyrir kennslu nemenda með erfið hegðunarvandamál. Hvað faglegan stuðning varðar var bent á ráðgjöf sem Brúarskóli hefur sinnt, en Brúarskóli er sérskóli fyrir börn með alvarlegan hegðunar-, tilfinninga- og geðrænan vanda. Um er að ræða einnar klukkustundar námskeið sem fer fram með heimsókn starfsmanna Brúarskóla í almennan grunnskóla. Brúarskóli sinnir hins vegar hvorki eftirliti með verkalagi annarra grunnskóla né tekur á því nokkra ábyrgð.

Í bréfi umboðsmanns segir hann ekki hægt að draga aðra ályktun en svo að notkun umræddra einveruherbergja felist í einhverjum tilvikum viðbrögð almennra grunnskóla við þeim vanda sem þeir telja að „skóli án aðgreiningar“ hafi haft í för með sér. Í skriflegum svörum og viðtölum verði ráðið að starfsmenn skólanna telji nýtingu einveruherbergja ekki falla undir líkamlegt inngrip í skilningi laganna. Þvert á móti sé þorri nemenda tilbúinn til samvinnu um að fara í herbergið. Þá væru nemendur ekki læstir þar inni. Í alvarlegri tilvikum þegar þyrfti að færa nemanda þangað með líkamlegu valdi og halda honum þar, væri um að ræða mjög skamman tíma.

Þótt skólarnir telji sig hafa fylgt fyrirmynd og ráðgjöf Brúarskóla sé engu að síður ljóst að þeir telji sig hafa takmarkaðan faglegan stuðning að þessu leyti og vísa til þess að lítill skilningur sé fyrir hendi af hálfu yfirstjórnenda skólamála.

Einveruherbergi notuð án aðkomu ráðuneytis og yfirstjórnenda

Umboðsmaður telur að með tilliti fjölbreytileika þeirra tilvika sem um sé að ræða þegar gripið sé til notkun einveruherbergja geti afstaða ráðuneytisins um að banna notkun þeirra ekki talist fyllilega skýr. Það skorti upplýsingar um hvað það sé í núverandi framkvæmd skólanna sem samræmist ekki lögum um grunnskóla. Þá sé afstaðan ekki leiðbeinandi um hvernig taka beri á málum.

Hann bendir á að sú þróun skólanna að nota einveruherbergi til að bregðast við vanda nemenda með alvarlegri hegðunarvandamál hafi komið til án sérstakrar aðkomu ráðuneytisins eða annarra yfirstjórnenda skólamála.

„Í ljósi hagsmuna þeirra barna sem hér eiga í hlut, svo og þeirrar grunnkröfu íslenskra laga að viðbrögð grunnskóla við óæskilegri hegðun samrýmist mannlegri reisn nemenda, tel ég ástæðu til þess að ráðuneytið kynni sér nánar þá framkvæmd við notkun einveruherbergja sem áður er lýst og taki, eftir atvikum, afstöðu til þess hvort og þá hvernig rétt sé að bregðast við,“ segir í bréfi til ráðherra.

Ráðuneytið hefur frest til 1. febrúar næstkomandi til að veita umboðsmanni þær upplýsingar sem óskað er eftir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert