Svakalega góð stemning með álfunum

Höfuðstaður álfa á austurlandi lýsist upp á aðventunni.
Höfuðstaður álfa á austurlandi lýsist upp á aðventunni. Ljósmynd/Elísabet Sveinsdóttir

Kertaganga í Álfaborg á Borgarfirði eystri var haldin nú á þriðjudag. Um er að ræða árvissan viðburð hjá grunnskólanum í Borgarfirði og er markmiðið að búa til huggulega samverustund á aðventunni. Í ár var þó gangan einnig nýtt sem fjáröflun fyrir ferðasjóð grunnskólabarnanna.

Sigurður Högni Sigurðsson, deildarstjóri í grunnskólanum, segir í samtali við mbl.is að gangan hafi tekist afar vel til þetta árið. „Það var meira af kertum en vanalega, gott veður og svo aðventutónleikar um kvöldið. Heilt yfir myndaðist svakalega góð aðventustemning.“

Sigurður segir að gengið hafi verið upp á Álfaborg og tendrað á kertum árlega undanfarin tuttugu ár. Álfaborgin er, fyrir þá sem ekki eru staðkunnugir, klettur sem stendur einn og sér í miðjum firðinum. Samkvæmt heimildum mbl.is er um að ræða höfuðstað álfa á Austurlandi. Þó ekki sé hægt að fullyrða um það.

Ferðasjóður nýtur góðs af göngunni

Eins og áður segir var sá hátturinn hafður á í ár að nýta gönguna í fjáröflunarskyni fyrir ferðasjóð barnanna í grunnskólanum. Sigurður segir að í venjulegu árferði séu ýmsir slíkir viðburðir haldnir yfir árið, svo sem jólaböll, páskabingó og fleira.

Allir slíkir viðburðir hafa fallið niður undanfarin tvö ár vegna faraldursins en Sigurður segir að afar vel hafi tekist til við fjáröflun í þetta skiptið. Um áttatíu kerti hafi selst og ágóðinn renni í ferðasjóð barnanna.

Afar hugguleg jólastemming myndaðist við tendrun kertanna og voru sungin jólalög í lok göngunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert