Vilja koma í veg fyrir hreyfingu og samgang

Smithættan kemur við hreyfingu á fólki, að sögn Þórólfs.
Smithættan kemur við hreyfingu á fólki, að sögn Þórólfs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Töluverð umræða hefur skapast um það að ekki megi selja veitingar í hléum leiksýninga í leikhúsum vegna sóttvarnarreglna og sögðu leikhússtjórar stóru leikhúsanna tveggja, í samtali við mbl,is í gær, það skjóta skökku við. Sérstaklega í ljósi þess að það má afhenda leikhúsgestum vatnsglös. Fólki þykir skrýtið að fá ekki að kaupa kaffi, gos og sælgæti eða jafnvel eitthvað sterkara þegar hlé er gert á sýningu.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ástæðuna fyrir þessu einfalda, en markmiðið sé að reyna að hafa eins lítinn samgang á milli fólks og hægt er.

„Ástæðan fyrir þessu er sú að við viljum hafa sem minnsta hreyfingu á fólki og samgang á milli fólks meðan á þessu stendur. Smithættan kemur við hreyfingu á fólki og samgang fólks fram og til baka. Þess vegna reynum við að minnka það eins og hægt er með því vera ekki að láta fólk fara úr sætunum og þyrpast  fram til að kaupa á miðri sýningu,“ útskýrir Þórólfur.

Ekki er hins vegar hægt að neita fólki um vatn, en glas af vatni þykir kannski ekki jafnspennandi og aðrar seldar veitingar og því mögulega minni líkur á að fólk leggi leið sína fram eftir því.

Þórólfur bendir á að vissulega sé töluverður samgangur á milli fólks þegar það er að koma og fara af leiksýningum, og því sé hægt að nýta þann glugga til að kaupa veitingar áður en sýning hefst.

„Það er óhjákvæmilegt að mörgu leyti, þó það hafi verið reynt að hafa það eins aðskilið og í hólfum og mögulegt er. En það er þessi samgangur og hreyfing sem við viljum koma í veg fyrir og ég held að allir verði að skilja það út frá því sjónarhorni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert