Valgerður Jóhannsdóttir er að undirbúa sýningu á verkum sínum, sem verður í Gallerí Horninu í Hafnarstræti 15 í Reykjavík í byrjun næsta árs. „Ég ætla að taka allar myndirnar mínar á vinnustofunni og vera með svokallaða pop-up-sýningu að danskri fyrirmynd, losa mig við eins margar myndir og ég get til þess að hreinsa hugann og byrja síðan aftur á núlli.“
Listamenn úr öllum áttum hafa alla tíð tengst rekstri veitingahússins Hornsins og fyrir bragðið hefur það verið mikið menningarhús. Þeir aðstoðuðu við að búa húsnæðið undir veitingarekstur, sem hófst sumarið 1979, og hafa síðan tekið þátt í ýmsum uppákomum í húsinu. Djúpið var formlega opnað 9. desember 1979 með samsýningu sex grafíklistamanna, og Gallerí Hornið varð til 1996.
Frændurnir Guðni Erlendsson leirlistamaður og Jakob H. Magnússon matreiðslumeistari hófu rekstur Hornsins ásamt eiginkonum sínum. Guðni seldi Jakobi sinn hlut 1983 og síðan hefur sá síðarnefndi átt og rekið staðinn ásamt fjölskyldu sinni.
Valgerður, eiginkona Jakobs, segist hafa orðið fyrir miklum áhrifum frá myndlistarfólkinu sem hafi verið með sýningar í Djúpinu og síðar í Galleríinu, þar sem hún hafi seinna séð um sýningarhaldið.
„Þarna var stöðugur straumur listafólks,“ áréttar hún og nefnir meðal annars félaga í SÚMhópnum, Rósku, Dag Sigurðarson, Alfreð Flóka og fleiri. „Þetta fólk hafði mikil áhrif á mig og lengi blundaði í mér að taka fram pensil og mála eitthvað á striga,“ segir hún um byrjunina í listinni. Hún hafi stundað nám í Myndlistarskóla Kópavogs í tvö ár, farið á ótal námskeið og fundið sig æ betur í þessu umhverfi. „Myndlistin varð að ástríðu, varð helsta áhugamál mitt, ég hætti í hárgreiðslunni og frá 2005 hefur nánast öll orkan farið í að mála.“
Listakonan málar einungis með olíulitum og fer út um víðan völl. „Ég er ekki föst í einhverju formi heldur beiti frjálsri tækni og mála það sem hugurinn segir mér hverju sinni. Ég byrja kannski að mála með ákveðna mynd í huga en enda svo með eitthvað allt annað. Ég leyfi hlutunum að koma, teikna þá ekki upp áður á striga, heldur er meira abstrakt, læt litina flæða ef sá gállinn er á mér.“