Dæmd til að greiða dánarbúi 35 milljónir

Ljósmynd/Colourbox

Landsréttur hefur dæmt konu til að greiða dánarbúi 35,3 milljónir króna á þeim grundvelli að um lán var að ræða sem konunni bar að endurgreiða. Konan var í óvígðri sambúð með manni frá árinu 2015. Þegar hann lést árið 2018 tók dánarbú við öllum fjárhagslegum réttindum hans.

Dómur Landsréttar féll í dag, en hann er í aðalatriðum staðfesting á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í málinu í lok ágúst 2020.

Fram kemur í dómi Landsréttar að dánarbúið hefði í ágúst 2019 höfðað mál á hendur konunni og krafðist endurgreiðslu verulegs hluta fjármuna sem maðurinn innti af hendi til konunnar á tímabilinu frá 15. apríl 2015 til 28. mars 2018.

Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að konan hafi ekki getað haft réttmætar væntingar um eða mátt treysta því að maðurinn hefði innt af hendi umræddar greiðslur til hennar án væntinga um endurgreiðslu.

Yrði lagt til grundvallar að greiðslurnar hafi verið lán sem maðurinn veitti konunni sem henni bæri að endurgreiða dánarbúi hans. Eins og það er orðað í dómi Landsréttar: „Með hinum áfrýjaða dómi var réttilega komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi [konan] hafi ekki getað haft réttmætar væntingar um eða mátt treysta því að B [maðurinn] hafi innt af hendi umræddar greiðslur til hennar án væntinga um endurgreiðslu. Verður lagt til grundvallar að greiðslurnar hafi verið lán sem B veitti áfrýjanda sem henni beri að endurgreiða dánarbúi hans.„

Þegar af þeirri ástæðu kæmi ekki til álita hvort uppfyllt væru skilyrði þess að ólögfestri reglu kröfuréttar um óréttmæta auðgun yrði beitt í málinu.

Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var hann staðfestur um skyldu konunnar til að greiða dánarbúinu 35.300.000 krónur ásamt dráttarvöxtum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert