Félagsmenn í Eflingu fá að tilnefna til stjórnar

Það var glatt á hjalla í húsakynnum Eflingar á vordögum …
Það var glatt á hjalla í húsakynnum Eflingar á vordögum 2018, þegar Sólveig Anna Jónsdóttir náði kjöri sem formaður. Hún sagði því embætti þó lausu í vetur eftir að starfsfólk á skrifstofu félagsins lýsti harðstjórnarilburðum hennar. mbl.is/Hari

Uppstillingarnefnd Eflingar hefur ákveðið að auglýsa í fyrsta sinn eftir tilnefningum til setu í stjórn félagsins. Vanalega hefur uppstillingarnefnd valið ein síns liðs en nú verður valið úr tilnefningum í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Í tilkynningu félagsins um málið segir að verið sé að tryggja lýðræðislegan rétt félagsfólks til þess að taka þátt í starfi Eflingar og eykur þetta möguleika áhugasamra félagsmanna á þátttöku.

Allir fullgildir félagar geta tilnefnt sjálfa sig eða aðra fullgilda félagsmenn og mun uppstillingarnefnd meta hæfi þeirra sem tilnefndir eru.

Leitast verður við að stjórn endurspegli félagsmenn með tilliti til uppruna, kyns, starfsgreinar, aldurs og annarra þátta, eins og það er orðað í tilkynningunni.

Umsóknarfrestur er til 3. janúar á nýju ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert