Jafnt aðgengi að íþróttum ekki nóg

Málstofa um jafnrétti í íþróttum fór fram fyrr í dag …
Málstofa um jafnrétti í íþróttum fór fram fyrr í dag í Ráðhúsi Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Börn af erlendum uppruna eru helmingi ólíklegri til að stunda íþróttir með félagi hér á landi en börn af íslenskum uppruna. Mikilvægt er að beita einstaklingsmiðaðri nálgun til að auka þátttöku þeirra sem hafa orðið útundan og efla upplýsingamiðlun og gera hana fjölbreyttari. Þetta kom fram í máli Jasminar Vajzovic Crnac, verkefnastjóra hverfisverkefna í Breiðholti á málstofu um jafnrétti í íþróttum sem fór fram í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun.

Í Íþróttafélagi Reykjavíkur (ÍR) eru á bilinu 2.300 til 2.600 iðkendur. Það stingur í stúf að einungis 6% af þeim eru börn af erlendum uppruna í ljósi þess að innflytjendur telja um 30% íbúa Breiðholts.

„Jafnt aðgengi íþróttaiðkenda þvert á mál- og menningarhópa er mjög mikilvægt og þetta er réttlætismál. Í samfélagi sem við búum við í dag þarf að vera jafnt aðgengi að hreyfingu. [...] Lýðheilsa skiptir rosalegu máli og hreyfingin er hluti af því. Það gildir sama um fólk af erlendum uppruna,“ segir Jasmina í erindinu Aðgengi fólks af erlendum uppruna að íþróttum í Breiðholti, sem hún hélt í morgun.

Ekki nóg að allir séu velkomnir

Að sögn Jasminar er ekki nóg að öll börn séu velkomin til að taka þátt en ýmsar hindranir liggja oft í vegi foreldra af erlendum uppruna sem Íslendingar glíma ekki við og eru jafnvel ekki meðvitaðir um. Sem dæmi nefnir hún upplýsingaflæði, tæknilæsi og menningarlæsi, en ekki er langt síðan að stór hluti foreldra var ekki meðvitaður um frístundakortið sem stendur til boða.

„Í sjálfu sér er ekki alveg nóg að segja bara fólki af erlendum uppruna „Þið eruð velkomin“, því fólk er kannski ekki með upplýsingar um hvert á að fara. Má ég fara inn á skrifstofu? Get ég hringt? Á ég að fara í tölvuna? Það eru svo misjöfn skilaboð,“ segir Jasmina í samtali við mbl.is.

Fólk vill læra íslensku

Að sögn Jasminar geta tungumálaörðugleikar einnig verið hindrun í vegi foreldra en oft og tíðum skortir upplýsingar á fleiri málum en íslensku á vefsíðum stofnana og íþróttafélaga.

„Ég veit að það er auðvelt fyrir okkur að segja við innflytjendur þið verðið bara að aðlagast og læra tungumálið. Auðvitað vill fólk læra tungumálið. Ég veit að í þessum hópum sem ég hef verið að hitta eru margir einstaklingar, fleiri hundruð einstaklingar, sem öll tala um að þau vilji læra íslensku. En aðgengið að íslensku er ekki auðvelt heldur,“ segir Jasmina og bætir við að með því að efla upplýsingaflæði á fleiri tungumálum aðstoðum við fólk að komast betur inn í íslenskt samfélag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert