Maður á fertugsaldri sem grunaður er um að hafa nauðgað stúlku á unglingsaldri síðustu helgi var látinn laus úr gæsluvarðhaldi í dag. Var maðurinn í varðhaldi í fjóra daga en rannsóknarhagsmunir gerðu ekki kröfu um að hann yrði enn í varðhaldi, að sögn lögreglu.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar, staðfestir í samtali við mbl.is að maðurinn hafi verið látinn laus í dag.
„Ákvörðunin er tekin á grundvelli þess að ekki þótti efni til að halda honum lengur með tilliti til rannsóknarhagsmuna. Þegar svo er þá ber okkur að sleppa honum úr varðhaldi.“
Grímur segir manninn hafa setið í varðhaldi í fjóra daga og að rannsókn málsins gangi vel. Vonast sé til þess að hægt sé að klára rannsóknina fljótlega.